Þessa helgi byrjuðum við á að mála veggina í vélaskemmunni (fjárhúshlöðunni) og Holla þreif pottinn og fór svo í reiðtúr með Þórunni á Botnum, en þeir Lúkas og Garpur hafa dvalið í góðu yfirlæti hjá þeim í vikunni.
Laugardagurinn fór svo í að klára drenlögnina í hestagerðinu og bora niður átta hornstög á hestagirðingunni sem við settum upp síðasta haust, naut Nonni þar aðstoðar Árna tengdasonar en krakkarnir voru hjá okkur í veðurblíðunni alla helgina þannig að heiti potturinn nýttist vel og allir krakkarnir eru sólbrenndir.
Holla skellti sér svo í annan reiðtúr með Þórunni og um kvöldið var svo Eurovision partí í Mið-Setbergi með tilheyrandi veisluföngum að hætti Hollu og svo ómælt snakk á eftir.
Sauðburðurinn er enn í gangi og fengum við tvílembinga undan Mjallhvíti, Holla þurfti að hjálpa henni því hrúturinn sat festur á hornunum.
Mjallhvít með hrút og gimbur
Um kvöldið skelltu krakkarnir og Holla sér niður að á og renndu fyrir silung, Holla nældi í flottan 9 punda sjóbirting - seig sú gamla!
Holla veiddi 9 punda sjóbirting í Þjórsá, Perlurnar tvær og Lubbi fylgjast spennt með
Sunnudaginn notuðum við til að klára að ganga frá rafstrengjunum á girðingunni þannig að nú eru bara tvö hlið eftir og þá verður hægt að sleppa reiðhestunum þar.
Hitinn náði hæst um helgina 18,9°C á föstudag, 18°C á laugardag og 16,7°C á sunnudag en blíðunni fylgdi svolítill vindur sem náði hámarki á sunnudag 18 m/sek.
|