Við fórum austur seinnipart á föstudag við komum við á Vindási og plönuðum helgina, Bragi hafði í vikunni klárað þakið á dæluskúrnum og smíðað festingar á sturtuvagninn fyrir kefli til að draga hitaveiturörið út. Um kvöldið útbjuggum við smá grænmetisgarð í traktorsdekki inn við bústaðinn. ![]() Holla plantar káli og kryddi í dekkið Nonni málaði hluta af gröfunni en hann var búinn að háþrýstiþvo um síðustu helgi. ![]() Grafan að verða nokkuð snyrtileg og hætt að leka og sóða sig út Laugardagsmorguninn fór í að hjálpa Guðmundi og Lóu í Heysholti að klippa hófa á hrossunum þeirra, við hirtum líka helling af greinum sem féllu til við grisjun í vor hjá þeim - þær fara væntanlega á verslunarmannahelgarbrennuna. ![]() Greinarnar fylltu sturtuvagninn og geipina líka Eftir hádegi fórum við í að koma glussatjakknum á ýtutönninni saman með nýju þéttingunum og suðum líka festingu fyrir dieselolíusíu á gröfunni sem var brotin. Um kvöldið var okkur boðið í grill á Vindási ala Gummi og eftir matinn fórum við niður að Helli, Nonna vantaði nokkra punta fyrir deiliskipulagið sem hann er að vinna fyrir þau. Á bakaleiðinni kíktum við á Lækjarbotna í einn kaffibolla og spjall. Á sunnudaginn fórum við á 17.júní skemmtunina á Brúarlundi, Holla fór ekki ríðandi þetta árið eins og stundum áður - var eitthvað slæm af harðsperrum eftir að hafa tekið í gegn pallinn og girðinguna í bænum í vikunni - þar var margt um manninn á skemmtuninni þrátt fyrir rigningarsudda og kaffið og kökurnar sviku engan. ![]() Krakkarnir bíða spenntir eftir að dómararnir raði í sæti en í yngsta flokknum fengu allir verðlaun þannig að enginn fór súr heim Nonni fór eftir skemmtunina í að fylla að borholuhúsinu og lækka landið í kringum það ![]() Nonni að fylla að borholuhúsinu Nonni endaði svo daginn á að slá og hirða bæði flatirnar við bústaðinn og blettinn á Vindási svo var bara að skella sér í bæinn. |
Mið-Setberg ræktunarbú > Dagbók >