18. júní 2009

posted Jun 18, 2009, 4:46 AM by Jón Pétursson   [ updated Sep 29, 2009, 3:44 AM ]
Nonni skellti sér austur á Egilsstaði á föstudaginn til að sækja Willys 1946 módelið sem Gissur tengdapabbi Guðrúnar okkar hafði gefið okkur, ástandið á honum var heldur hrörlegt en sjáum til hvað verður úr honum.
 
 
Willysinn hífður úr kerrunni
 
Á laugardaginn var svo haldið áfram með reiðveginn með Landveginum upp að Brúarlundi, nú mætti Eiður bóndi í Hrólfsstaðahelli með mannskap til að tína grjót og munaði um það.  Nonni og Gulli keyrðu svo vikur í reiðveginn og náðu að leggja á rúma tvo kílómetra.
 
 
Grjót týnt úr reiðveginum og vikur lagður ofaní
 
Á sunnudaginn fór Nonni og aðstoðaði Braga á Vindási við að setja niður pípuhlið á veginn þar sem girðingin er á milli Varða og Vindáss. Eftir það drifum við í að leggja rafgirðingarstreng frá stöðinni á Vindási niður í girðinguna þar sem við erum með hestana.  Seinnipartinn fórum við svo niður á Lækjarbotna og hrærðum með þeim steypu í gólfið á fiskverkunargámnum sem þau eru að útbúa til að verka bleikjuna.  Um kvöldið fórum við svo með Hyllingu hennar Helgu í járningu til Eiðs.
 
Holla þurfti svo að fara í vinnu á mánudaginn en Nonni sótti Hyllingu til Eiðs og fór svo í að útbúa girðingu frá hestastykkinu yfir að gerðinu sem við vorum að smíða við fjárhúsið á Vindási.  Einnig vann hann í rafkerfinu á Massanum en það var eftir að klára að tengja ljósin og fl.
 
Á þriðjudaginn var svo tekin lokatörn í grjóttínslu í reiðveginum upp að Brúarlundi, auk okkar og heimamanna á Lækjarbotnum mætti Eiður úr Hrólfsstaðahelli með mannskap og einnig komu Helgi og Regúla frá Austvaðsholti með son sinn og náðum við að tína grjót og þjappa veginn alla leið upp að Brúarlundi þannig að vegurinn væri nothæfur fyrir 17. júní hátíðarhöldin þar.  Fyrir þá sem ekki vita þá er hefð fyrir því í Landsveitinni að menn komi ríðandi á Brúarlund til hátíðarhalda og byrjar dagskráin á hópreið um svæðið og svo er létt reiðkeppni í framhaldi.  Að lokum er svo efnt til leikja fyrir börnin og svo er kaffi og kökur í Brúarlundi á eftir.  Um kvöldið fórum við með reiðhrossin að Lækjarbotnum en þaðan verður hópreið á hátíðina þann sautjánda.
 
Miðvikudagurinn 17. júní rann upp með glampandi sól og náðum við að mála handriðið á pallinum að hluta um morguninn en eftir hádegið fórum við svo niður að Lækjarbotnum og þaðan var svo riðið á Brúarlund. Þegar hátíðardagskráin hófst byrjaði hann að rigna og rigndi nánast allan tímann á meðan á henni stóð en hætti svo þegar kaffið byrjaði þannig að menn riðu í blíðskaparveðri heim á leið.  Menn voru að heyra ánægðir með nýja reiðveginn - það fór reyndar lítið fyrir þökkum eða hrósi til okkar sem lögðum mikið á okkur að gera hann í sjálfboðavinnu... Nú er boltinn hjá upplendingum að halda áfram með veginn a.m.k. upp að Skarði.
 
 
Holla, Siggi og Þórunn spretta úr spori á nýja reiðveginum
 
Um kvöldið buðum við svo heimilisfólkinu á Lækjarbotnum í grill og skyldi prófuð ný uppskrift af grillaðri bleikju frá Lækjarbotnum sem marineruð var í Teriyaki kryddlegi - alveg meiriháttar góð!
 
Á fimmtudaginn kastaði svo Bibba frá Vindási myndarlegu brúnu hestfolaldi undan Kóral frá Lækjarbotnum sem er undan Sæ frá Bakkakoti.  Stína á Vindási á folaldið en það er sammæðra þeim Eldingu 4 vetra og Þrumu 1 vetra frá Mið-Setbergi sem eru í okkar eigu. 
 
Nýkastað hestfolald undan Bibbu og Kóral
 
Eftir hádegið skelltum við okkur svo til Margrétar í Hellum og fengum að hirða gamlar hestdregnar landbúnaðarvélar hjá henni og stilltum þeim upp á lóðinni hjá okkur til skrauts
 
Gamalt hestdregið hnífaherfi sem vantar á sætið og fjaðraherfi
Gamall og þreyttur hestvagn og hestdregin rakstrarvél stillt upp við hliðið
 
Comments