18. janúar 2009

posted Jan 18, 2009, 12:32 PM by Jón Pétursson   [ updated Jan 19, 2009, 7:52 AM ]
Það var nóg að gera um helgina hjá okkur, laugardagurinn fór í að setja endurbættu hliðin á tökubásinn, klára að setja upp lýsingu í vélaskemmunni og svo hjálpuðum við Gulla og Nínu á Lækjarbotnum að flytja nokkur hundruð bleykjur, sem komnar eru í sláturstærð, frá fiskeldinu í Laugum heim í kerin á Lækjarbotnum. Holla byrjaði svo á að prjóna sér annan kjól.
 
 
Við tókum svo hálfsystkinin Loga og Eldingu, sem bæði eru á fjórða vetri, með okkur í bæinn á sunnudeginum. Það gekk ótrúlega vel, við tældum þau inn í fjárhús, settum á þau múla og teymdum þau svo upp á kerruna nó próblemó - greinilegt að þau búa vel að því sem Magnús Lárusson og Svanhildur Hall hjá Úrvalshestum í Holtsmúla kenndu þeim síðasta vor. Trippin, þá á þriðja vetri, voru hjá þeim í hálfan mánuð og á þeim tíma náðu þau að læra að hræðast ekki og bera virðingu fyrir manninum, láta ná sér, teymast, leyfa að lyfta upp fótum og svo var meira að segja farið á bak þeim og þeim kennt að hlýða taum - við mælum hiklaust með því að senda trippi til þeirra í "leikskóla" eða fortamningu eins og það heitir reyndar - það er sko hverrar krónu virði! 
Við tókum líka eftir því þegar að við vorum að eiga við þau að Magnús hafði rétt fyrir sér þegar hann gaf okkur mat á geðslagi þeirra, Elding er örari og kjarkmeiri og hefur lært meira en Logi sem er rólegri og kjarkminni og ekki kominn eins langt og nú er bara eftir að sjá hvort hann hefur haft rétt fyrir sér í mati á hreyfingum og byggingu. Við ætlum okkur að eiga svolítið við trippin í svona mánuð og svo fara þau til Eiðs í Hrólfsstaðahelli í tamningu.