18. febrúar 2014

posted Feb 18, 2014, 3:03 PM by Jón Pétursson
Við fórum ekkert í sveitina milli jóla og nýárs en Sigga systir Nonna, Jan, Edda og Bob ásamt vinum voru í heimsókn frá Skotlandi. Það var ansi mikið að gera í vinnunni hjá Hollu í janúar og því lítið farið þann mánuðinn og Nonni hefur nóg að gera í Hellinum (the man cave) við uppgerð á Willys og ýmsar smíðar svo sem nýjan kindaragara sem við gáfum botnaliðinu í jólagjöf.

Kindaragarinn

Holla mætti reyndar í ullarspuna á Brúarlund eina helgi í janúar og eins og oft á þessum tíma tók dágóðan tíma að moka okkur inn í bústað enda snjórinn pakkaður og leiðinlegur.

Það sest alltaf snjór í lægina innan við hliðið

Síðustu helgina í janúar fórum við á hið árlega þorrablót Landsveitar í Brúarlundi sem okkur vantar aldrei á. Það var sveitinni til sóma frábær skemmtiatriði og dansað langt fram á nótt. 

Skemmtinefndin var af upplandinu þetta árið og tóku karlarnir ma á það ráð að fækka fötum undir stórgóðum söng kvennana í nefndinni

Við færðum graðtittina með Guðlaugi og co frá stykkinu við Þúfu í stykki vestan við Lækjarbotna, Gjafar þroskast vel og lítur líka svona ljómandi vel út. 

 
Graðtittirnir í Þúfustykkinu - til aðgreiningar þá eru þeir fjærst á myndinni...

Við skoðuðum líka hesthúsinnréttingarnar sem eru komnar upp hjá Sigga og Tótu á Botnum - það verður munur hjá þeim að vinna í nýju aðstöðunni

Glæsilegar innréttingar í hesthúsinu

Við erum búin að taka því nokkuð rólega þrjár síðustu helgar, Nonni hefur m.a. aðeins dundað í Zetor í skemmunni og Holla tekið törn í tiltekt, mætt í spuna og dundað við prjónaskap. 
Guðrún, Fanney og Rakel komu í stelpuferð í sveitina um þarsíðustu helgi og fóru þær m.a. niður á Lækjarbotna að skoða geiturnar frá Palla á Fossi sem Jónína er með í fóstri í vetur. 

Geiturnar er heldur kindarlegar á þessari mynd

Nonni datt niður á Land Rover árgerð 1967 keyrðan aðeins 80 þús km frá upphafi sem hann keypti og gaf Hollu, það kom svo í ljós þegar farið var að skoða bifreiðaskránna að þetta var gamli bíllinn hans Geira á Minni-Völlum sem hann keypti nýjan 1967 og átti til 1995 - skemmtileg tilviljun það. 

Nýji sveitabíllinn L-495 Land Rover 1967

Hann lítur nokkuð vel út fyrir utan að grindin og hurðirnar eru nokkuð ryðgaðar. Hann datt í gang í fyrsta starti, kramið virðist vera gott vélin vel þétt og gírkassinn liðugur. Honum var lagt 2003 vegna athugasemda sem hann fékk í skoðun vegna styrkleika grindarinnar og ekki verið hreyfður síðan. Það verður spennandi verkefni að hressa aðeins uppá útlitið á honum, fá nýjar hurðir, laga grindina þá ætti hann að renna í gegn um skoðun og draumur Hollu að keyra um á Land Rover að verða að veruleika en það er búið að vera ofarlega á óskalistanum alveg síðan hún var krakki.

Comments