18. apríl 2010

posted Apr 18, 2010, 4:35 PM by Jón Pétursson
Það var frekar óhugnanlegt að horfa yfir Eyjafjallajökul þessa helgina, drullan vall uppúr jöklinum eins og sjóðandi olía og þvílíkar eldingar að við höfum aldrei séð annað eins.
Meðan maður þakkar fyrir að  vindáttin var frá okkur þá var samhugur með bændum fyrir austan okkur, ótrúlegt hvað maður er varnarlaus gagnvart móður náttúru.
 
Gosmökkurinn yfir Flagbjarnarholtinu séður úr stofunni hjá okkur og á hinni myndinni er mökkurinn séður frá Vindási
 
Helgin var annars frekar róleg hjá okkur við sorteruðum féð í hlöðunni merktum gemsana með fullorðinsmerkjum og fengu þeir seinni bólusetninguna við blóðsótt. Síðan var lagt á ráðin og undirbúið hvað skyldi gera ef askan kæmi yfir Landsveitina. Lambhrútarnir og eldri hrútar sem vantaði merki í voru einnig merktir áður en þeim var hleypt út aftur.
 
Hrútarnir spekingslegir, Palli fremstur og á bak við hann eru Pétur og Tóti og Orri aftastur. Á hinni myndinni er verið að sortera féð í fjárhúsinu
 
Laugardagskvöldið var tekið rólega og framanaf kúrt yfir sjónvarpinu en og svo kíktu Gulli og Nína í heimsókn og þá var upplagt að draga fram osta og bjór.
 
Sunnudagurinn fór að hluta til í að taka til í gamla fjósinu á Vindási og undirbúa sprautunarklefa fyrir Pétur því nú fer að líða að málun á bensanum. Þegar tiltektinni var lokið mátti halda dansiball í fjósinu - þvílíkt pláss.
Við rúlluðum líka til Eiðs í Helli og sóttum okkur nokkur hrossabjúgu og vakúmpökkuðum þeim svo á Vindási.  Ekki vannst tími til að sjá Herborgu okkar undir en Eiður var á leiðinni í fermingu, hann segir ganga vel með hana og hún fljóta að læra.
Síðan var samantekt í bústaðnum, heyrúlla sett á pallinn á Fordinum rúllað á Botna og Þórhallur sóttur ásamt nokkrum kössum af bleikju sem fóru með í bæinn.
 
Comments