17. september 2012

posted Sep 17, 2012, 2:01 PM by Jón Pétursson   [ updated Sep 17, 2012, 2:37 PM ]
Á laugardaginn fórum við yfir á Vindás að smala fénu úr haganum inn á tún, meirihluti þess hefur reyndar haldið sig í túnunum að undanförnu þar sem opið var út í hagann en það eru alltaf nokkrar sem vilja vera á sínum stað í haganum á meðan þar er nokkur beit. Rakel sem kom með okkur austur á föstudag smalaði með þeim Braga og Gumma suðurhagann en fékk far með ömmu á meðan norðurhaginn var smalaður. Nonni ferjaði göngumennina um á Cherokee og fór svo út í nes og smalaði það - jeppinn reyndist bara vel og er nú formlega orðinn smalabíll.  

Cherokee-inn fékk merki í grillið sem vottorð um að hann sé formlega orðinn smali

Hann reyndi líka að smala Gullu úr Laugaholtinu, Möggu sem fylgdist með til mikillar kátínu - hún labbaði náttúrulega bara einn til tvo metra og snéri sér svo við og horfið með forundran á karlinn hvort hann ætlaði virkilega ekki að gefa henni nammi. Eftir að Nonni ræddi alvarlega við hana gafst hún upp og rölti af stað - eða þannig...
Árni og Guðrún komu á laugardag og borðuðu með okkur um kvöldið og fóru svo heim og Rakel með þeim.
Á sunnudag fór Holla í góðan reiðtúr á Abel með Helgu og Valla. Hrossin voru keyrð niður á Bjalla og svo var riðið yfir Bjalla- og Tjörvastaðaheiði yfir á Stóru-Velli og þaðan í Brúarlund. Svo var haldið um Minni-Velli yfir á Vindás. Abel reyndist bara vel og blés ekki úr nös þó Holla væri einhesta, hann er greinilega í fínu formi eftir Sprengisandsferðirnar með Eldhestum í sumar. Valli og Helga riðu svo heim í Flagveltu en við skutluðum einum hestinum til þeirra en hann hafði misst skeifu á leiðinni.

Valli, Holla og Helga leggja af stað frá Bjallanum

Nonni náði að helluleggja talsvert í skemmunni um helgina og sló líka garðinn á Vindási. Svo var bara að koma sér í bæinn með smá viðkomu á Botnum í kaffi.
 
Comments