17. janúar 2011

posted Jan 17, 2011, 1:14 PM by Jón Pétursson
Við renndum seinnipart á föstudegi í sveitina, þessa helgi átti að taka á frágangi í bústaðnum en lengi hefur staðið til að leggja parket á svefnloftið og klára ýmsan annan frágang.
Við vorum löt framanaf á laugardaginn en fórum svo yfir á Vindás um hádegið, var þá Strympa kindin hennar Stínu komin ein út í horn í hestagirðingunni og eitthvað ekki eins og hún átti að vera. Við röltum ásamt Möggu og Braga til að kíkja á hana, en þá tók hún á rás hjóp eins og vindurinn í allar áttir og á allt sem fyrir varð.  Hún reyndist vera alveg staurblind og náðum við henni eftir mikinn eltingaleik þegar hún flaug á hausinn á svelli, hún verður höfð á húsi og líklega gengur blindan til baka.  Hún er sennilega með bakteríu sem veldur bólgum á hornhimnunni í kindum og heitir Listeria er í umhverfinu en magnast upp í mygluðu heyi svokölluð Hvanneyrarveiki, hún getur einnig valdið lömun, fósturláti og getur dregið þær til dauða ef hún fer í heilann.  Við misstum einn af hrútunum okkar hann Móra frá Lækjarbotnum um áramót líklega var það þessi sama baktería, en meðgöngutími hennar er frá 3 – 70 dagar svo það getur verið erfitt að benda á einhverja eina ástæðu.
Bibba gamla merin er búin að vera eitthvað léleg undanfarna viku svo við rákum hrossin inn í gerði við fjárhúsið og keyrðum hana svo í gerðið á Vindási. Vonandi hressist sú gamla annars er ekkert annað en að fella þessa miklu ættmóður - vangaveltur voru um hvort hún væri með sama vírus og hefur verið að hrjá rollurnar eða hreinlega orðið klumsa. Það verður dekrað við þá gömlu með góðu heyi og vatni og vítamíni fram eftir viku og séð til hvernig hún braggast. 
Nonni kíkti svo á Massann en vatn var komið í síurnar og fraus þar þannig að hann fór ekki í gang um síðustu helgi, hann tappaði vatninu af og fyllti tankinn af dieselolíu og svo settum við ísvara á hann til að forðast svona uppákomu aftur. Eftir það rauk hann í gang og renndum við honum aftur niður í skemmu.
 
Abel og Lúkas fylgdust spenntir með þegar Stympa var elt uppi - Á hinni myndinni eru massinn og Myrka í birtunni frá útiljósinu á Vindási

Við aðstoðuðum Braga síðan aðeins í  girðingarvinnu, það hafði myndast pollur við fjárúsið sem einhver gerjun var greinilega í, ákveðið var að girða hann af svo féð væri ekki að drekka vatnið úr honum ef bakterían væri nú að grassera þar.
Seinnipartinn renndum við til Grétars og Betu var mikil gleði hjá Heklu og Myrku og ekki leiddist þeim að kútveltast saman í móanum.  Um kvöldið bauð "hinn rómaði kokkur" Bragi á Vindási sem var Sunnlenski matgæðingur vikunnar í Dagskránni okkur í mat fengum við lambasneiðar með bernais og tilheyrandi. Eftir matinn fórum við í Heysholt, en Nonni var fenginn til að sitja hitaveitufund með Guðmundi, Guðlaugi og Hannesi í Þúfu. Holla spjallaði við Lóu á meðan karlarnir ræddu málin.
Á sunnudeginum tókum við svo törn á svefnloftinu í tiltekt og gerðum klárt og stefnum að því að leggja parket næstu helgi.
Á heimleiðinni komum við við í Hrólfsstaðahelli og fengum saltað hrossakjöt í fötu og kíktum aðeins í hesthúsið á Eldingu, hún er að verða þvengmjó eins og flottasta model (öll fitan farin).  Siggi tengdasonur Eiðs hefur verið að þjálfa hana eftir áramót og eru þeir bara kátir með framvinduna.
Við komum svo við á Botnum í einn kaffisopa og síðan í bæinn.
 
 
Comments