Þessi helgi átti að vera kósí afslöppun fyrir jólin en það fór nú ekki alveg svo. Nonni setti upp nýja jólaseríu í norðaustan roki og kulda á laugardagsmorgun og Holla kepptist við að klára tvær peysur um helgina sem hún er að prjóna eftir pöntun fyrir jólin.
Jólaskreytingin í ár er hvít ljósaslanga á handriðið sem kemur vel út þegar farið er að skyggja
Eftir hádegið hádegið hætti hitaveitan okkar inni í Laugum að virka og allt varð vatnslaust, Nonni fór inn í dæluskúr og kom þá í ljós að borholudælan var hætt að dæla upp í afloftunartankinn. Kallað var í rafvirkja til að mæla dæluna og virtist hún vera í lagi, engin útleiðsla og tók eðlilegan straum. Næsta verk var þá að hífa dæluna upp úr holunni en hún er skrúfuð á endann á 24m löngu galvanhúðuðu 2 1/2 tommu vatnsröri sem er stungið niður í borholuna. Nonni, Bragi og Gummi á Vindási og Markús pípari í Húsagarði fóru í verkið, seinna bættust Grétar og Gulli í hópinn. Þegar byrjað var að hífa upp rörið kom í ljós hvers kyns var því rörið datt í sundur á 9 metra dýpi við vatnsborðið í holunni - það reyndist hafa kolryðgað á þessum 12 árum síðan það var síðast sett niður og dælan dældi því út um göt á rörinu og náði ekki þrýstingi til að koma vatninu upp á yfirborð.

Hér eru Markús, Bragi og Gummi glaðbeittir þegar byrjað var að hífa rörið upp á vírnum - hér er svo pípan úr holunni, þetta var 2 1/2" galvaniseruð vatnspípa
Dælan og 15 metrar af rörinu féllu við þetta ofan í holuna en stöðvuðust á öryggisvír sem settur hafði verið í dæluna til að hindra að hún félli niður í holuna ef hún losnaði af rörinu. Næst var reynt að hífa rörið með dælunni á endanum upp á öryggisvírnum en hann slitnaði þegar rörendinn var kominn upp að holutoppi - grátlegt. Ástæðan fyrir því að vírinn slitnaði er væntanlega sú að draslið þyngist eftir því sem það er dregið lengra upp fyrir vatnsborðið og vírinn bara hugsaður til að bera dæluna eina. Þegar vírinn slitnaði húrraði dælan og allt draslið niður í botn holunnar á 300 metra dýpi þannig að það þurfti ekki að spá meira í hana.
Við áttum nýja dælu til vara en engin rör í staðinn fyrir þau sem féllu ofan í holuna en Markúsi tókst að ræsa menn út hjá Seti og Byko á Selfossi og hann og Bragi hentust þangað og sóttu ný 3" rör úr plasti, fittings til að setja allt saman og nýjan ryðfrían öryggisvír. Enn vantaði eina múffu en okkur tókst að fá hana hjá Guðna hjá vatnsveitunni á Hellu.
Svo var að koma dælunni og rörunum í holuna á ný og hafðist það um þrjúleitið um nóttina. Þegar búið var að prufudæla upp í afloftunartankinn var dælan sem dælir inn á kerfið ræst en auðvitað í takt við annað þá bilaði hún þannig að sjálfvirka hraðastýringin á henni var óvirk. Nonna tókst að keyra hana handvirkt til að byrja með en svo var ákveðið að svissa varadælunni á kerfið og um fjögurleitið var vatn komið á kerfið en bara til bráðabirgða á meðan stýringin fyrir stóru dæluna er löguð.
Eftir hádegi á sunnudag fór Nonni á traktornum yfir á Vindás en komst ekki alla leið þar sem annað framdekkið varð loftlaust - hann hafði rekið það utan í eitthvað drasl um nóttina og rifið gat á hliðina á því - allt í stíl endalaust gaman... Þá var bara að kippa dekkinu af henda því á kerru og fá sér einn bolla á Vindási.
Næst fóru Nonni og Bragi og hleyptu á nýju hitaveituna á Vindási þannig að nú rennur vatn úr nýju borholunni upp í útihús við bæinn og allt virðist í fínu lagi. Dælan var búin að ganga alla vikuna áður og dældi um 40 l/mín við 3 bar út í hestastykkið en nú var þrýstingurinn aukinn í 4 bör og um 60 l/mín - svoleiðis er ætlunin að láta ganga í um viku áður en gamla hitaveitan verður aftengd og nýja veitan tekur við. Hitastigið hefur verið 50°C en hluti af vatninu var dælt ofan í holuna aftur þannig að það var í raun að hringrása en nú er öllu dælt frá holunni þannig að það verður spennandi að sjá hvort hún dregur ekki heitara vatn að sér eins og gerðist í prufudælingunni þegar hitinn var 56°C.
Næsta verk var að renna öllu fénu í gegnum rennuna og sortera í eina sex hópa undir hrútana, ætlunin er að nota Eðal, Bikar, Palla, Berjamó og eitthvað af lambhrútum líka.
Ekki var laust við að við værum lúin þegar við renndum í bæinn um níuleitið með viðkomu á Botnum til að sækja Tóta sem fékk far með í bæinn.