Á laugardagsmorgun fórum við yfir á Vindás og hjálpuðum Möggu og Gumma að sprauta gemsana, Bragi var þegar kominn í uppsláttinn á dæluhúsinu og Magga fór og hjálpaði honum þegar við vorum búin að sprauta. Stefnan var að klára uppsláttinn um helgina og steypa í síðasta lagi á sunnudag.
Bragi flottur í uppslættinum - sá gamli hefur greinilega engu gleymt
Við kláruðum að tengja rafmagnið í hlöðunni, lambhúsum, útiljósin og negla kapalspennur þar sem þær vantaði. Nonni fór svo í að skera niður stálfestingar með plasmavélinni sem nota á til að hengja upp braut fyrir hlöðudyrnar sem Gummi er að smíða.
Við renndum á traktornum með sturtuvagninn með heyrúllur niður í Helli og kíktum um leið á Herborgu sem er þar í tamningu og skoðuðum líka nokkur lömb hjá Önnu.
Seinniparturinn fór í að gera klárt fyrir steypuna og Nonni skipti um spólurofa við startarann í gröfunni og þegar við vorum í því upphófust mikil læti hjá fuglunum í haganum sem eru á fullu að undirbúa varp. Ástæðan fyrir látunum var að haförn var á sveimi yfir Vindási og stefndi hann út á Þjórsá, þar mætti honum annar haförn og þá fyrst urðu læti á svæðinu, hersingin hvarf svo sjónum upp með Þjórsá.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við sjáum haförn við ánna t.d. í fyrra sá Nonni einn sitja á Arnardoka sem er klettur í ánni við Vindás og ber greinilega nafn með rentu og svo höfum við líka séð örn nokkrum sinnum svífa með ánni við Mið-Setberg en þetta er í fyrsta sinn sem við sjáum tvo saman.
Ef rýnt er myndina sem Nonni tók á símann og er frekar óskýr sjást tveir mávar sem virka pínulitlir í samanburði við örninn neðarlega fyrir miðri mynd
(hægt er að smella á myndina til að stækka hana)
Við notuðum fyrripartinn á sunnudeginum til að gera klárt, koma vélunum fyrir og stilla upp svo sem léttast væri að steypa.
Steypan tók ekki nema tvo og hálfan tíma enda vaskir menn og flottar konur að verki - allt gekk eins og í sögu.
Gummi var á massanum okkar og mokaði möl í steypuhrærivélina og Magga og Holla voru ekki í vandræðum með að skutla sementspokunum í vélina sem tekur tvær skóflur af möl og tvo poka af sementi
Nonni hífði steypuna með gröfunni í mótið og Bragi tók á móti og sá um að pjakka steypunni í mótin
Síðan var bara að pakka saman og renna í bæinn um kvöldið.