17. apríl 2011

posted Apr 17, 2011, 10:02 AM by Jón Pétursson
Við fórum beint í kotið þegar við komum austur á föstudagskvöldinu og höfðum það náðugt yfir sjónvarpinu.
Á laugardagsmorgun fórum við út á Vindás og gáfum Eldingu og Tímoni morgungjöfina en Vindásbændur voru í fimmtugsafmæli á Laugalandi sem haldið var milli 9 og 12 um morguninn - það er svona öðruvísi. Svo fórum við á Lækjarbotna og fylgdumst með þeim bólusetja féð - þau nota enn gömlu aðferðirnar við þetta og við höfðum bara gaman af að fylgjast með og það sparaði okkur ferð á byggðasafnið...
Við fórum svo aftur á Vindás og þá voru Magga og Bragi komin heim og fórum við yfir verkin með þeim en þau fóru seinnipartinn í bæinn og ætluðu í leikhús um kvöldið og gista svo í bænum því þau ætluðu líka í leikhús með barnabörnin á sunnudaginn. Gummi er að vinna í afmælinu og fermingum á Laugalandi alla helgina þannig að við sáum um búskapinn á meðan.
 
Einn gemsinn fær klór frá Hollu og lygnir aftur augunum af sælu 
 
Við kíktum líka í heimsókn í hesthúsið til Valla og Helgu og þar var Keli bóndi í Snjallsteinshöfða og vinkona hans að sækja hey - Keli var hress eins og alltaf. Eftir gegningar um kvöldið eldaði Nonni saltfisk sem við keyptum á Vegamótum á spænskan hátt - hann bragðaðist alveg frábærlega. Holla er búin að komst að því að karlinn er snillingur í eldhúsinu og ekki víst að hann sleppi eins vel í framtíðinni.
Það styttist í sumarið vonandi, allavega er farið að koma brum á víðirinn. Lóan farin að syngja dirrindíí og tjaldurinn spókar í haganum og gæsir um öll tún.
 
Víðirinn farinn að bruma 
 
Sunnudag fórum við í gegningar um morguninn og Nonni fór svo í að sprauta ámoksturstækin á massann.  Nú fer að líða að því að hann komi með massann, sem er að gerð Massey Ferguson 135 árg. 1967, aftur austur eftir að hafa dundað helling í honum í bænum í vetur, meira um það síðar.
 
Ámoksturstækin orðin fagurrauð
 
Holla fór á meðan niður á Botna með bréf sem Nonni prentaði út fyrir Þórhall og svo fór hún í bústaðinn í smá tiltekt. Þegar Nonni var búin að sprauta tækin fór hann að vatna fénu og fann þá eina í afveltu, en þetta verður að passa vel á þessum tíma þar sem féð er orðið svo svert - við kíktum aftur á féð um kvöldið og þá hafði hún greinilega jafnaði sig. Holla er komin í páskafrí en Nonni verður eitthvað á ferðinni í bænum og austur á Laugarvatni þar sem hann tók að sér að sjá um að klára byggingu nýja gufubaðstaðarins eftir að samningi var rift við verktakann.
 
Comments