16. maí 2010

posted May 16, 2010, 3:49 PM by Jón Pétursson
Það er búið að vera nóg að gera í sveitinni, sauðburður í fullum gangi nær 80% borið og spriklandi lítil kríli um allar grundir.
 
Sauðburður í skugga eldgoss úr Eyjafjallajökli - við höfum sem betur fer ennþá sloppið við öskufall hjá okkur
 
Nonni er búinn að standa í ströngu en hann er að vinna upp 3 tún á Vindási með Braga bónda eða um 8 hektara, Nonni á náttúrulega stærsta og flottasta traktorinn og á stóra Dýrið ekki í vandræðum með tætarann og plóginn. Hann tætti líka upp kartöflugarðinn en í ár ætlum við að setja niður í garð sem er niður við á á Vindási.
 
 
Nonni ýtti uppgreftrinum úr skurðunum inn á mitt stykkið og tætti og plægði svo restina stykkinu - á hinni myndinni sést yfir Vindás og hluta stykkjanna sem verið er að endurvinna
 
Stína, Trausti og Aníta komu austur á Vindás um helgina og fengu hjá okkur græðlinga sem við klipptum niður úr trjánum sem við grisjuðum hjá okkur í vor og settu niður nokkur hundruð í fósturbeð á Vindási. Holla pottaði svo um 800 græðlingum og þá er ekki nema um þriðjungur búinn þannig að við verðum að tæta upp annað beð og sækja meiri skít til Jóa niður í Neðra-Sel ef koma á því öllu niður.  
Stebbi vinur Hollu kom í bíltúr með nýju kærustuna hana Árníu og Maríu dóttur hennar í smá lambaskoðun var sú stutta alveg til í að hafa eitt heim með sér - hana vantaði svo eitt lamb á svalirnar.
Sigga naglakona kom loksins í heimsókn eftir að hafa verið á leiðinni í mörg ár með sinn mann og tvo gutta, þeim fannst ekki leiðinlegt að fá rúnt í traktornum með Nonna og ekki var leiðinlegra að klappa hestunum og knúsa lömbin.
 
Útigangshrossin okkar hafa ekki farið varhluta af hrossapestinni en hún virðist enn ekki hafa farið illa í þau, vonandi verður þetta ekki verra.
 
 
Systurnar Þruma og Elding eru greinilega með pestina sem sést á nefrennslinu
 
Við renndum í ána á föstudagskvöldið og viti menn fjögra punda urriði féll fyrir beitunni hjá Nonna en það var mjög lítið í svo við urðum ekki frekar vör.
Guðrún mamma Hollu kom austur á sunnudeginum þó að hún hafi verið í sveit í 8 ár hefur hún aldrei séð kind bera, en eftir 3 tíma bið kom gemsi með lamb.
 
 
Comments