15. nóvember 2009

posted Nov 15, 2009, 10:42 AM by Jón Pétursson
Rúlluðum austur á föstudagskvöldi með málverk í aftursætinu, Guðlaugur á Botnum orðin 55 - hahahaha gamli gamli. Á austurleiðinni sömdum við vísu í kortið og var hún tilbúin þegar Selfossi var náð - skemmtum okkur konunglega en mesta vinnan var að rifja upp stuðla höfuðstafi og þannig.
Myndin er snilld og enginn annar en Óli bró sem átti heiðurinn af verkinu, algjör snillingur. Guðlaugur þekkti strax af hvaða hrossum myndin var og fannst Óli hafa náð merinni einstaklega vel. Þannig að ef einhvern vantar málverk í stofuna hjá sér eða sem gjöf þá er bara að hafa samband við okkur eða Óla. Hér er linkur í nokkrar myndir sem sýna málverkið í vinnslu.
 
Álfheiður Björk frá Lækjarbotnum með Ástrós
 
Á laugardagsmorgun var Nonni kominn á fætur snemma og rúllaði niður á Botna á stóra dýrinu með sturtuvagninn í eftirdragi, var þar kominn hópur manns það átti að fylla í nýja grunninn að húsi Sigga og Þórunnar á Hrauntá. Keyrðu þeir úr hrauninu á fjórum traktorum og Nonni var í að jafna í grunninum og náðu að klára um fjögur þegar gröfumaðurinn sem mokaði á þurfti að fara í afmæli.
 
Gengið sem keyrði i grunninn og púðinn tilbúinn á hinni myndinni
 
Eitthvað var Fordinn að stríða okkur og ákvað að hætta að ganga drap á sér á milli bæja og vildi ekki meir. Holla fékk því töffarabílinn hans Gumma lánaðan til að rúnta á milli bæja. 
Á meðan að Nonni keyrði á Botnum reif Holla undan Abel og Kerru ásamt Gumma og Möggu á Vindási. Seinnipartinn á laugadaginn fór Holla með Þórunni niður í Helli til Eiðs með þrjú hross í járningu.
Þegar á Botna var aftur komið fékk Holla smá sýnikennslu í Fjárvís forritinu hjá Jónínu.  Kvöldið var tekið rólega fyrir framan sjónvarpið fram undir ellefu en þá hentist Holla í bæinn með Birgi bróðir Braga sem var á leið í bæinn og sótti krúserinn - skvísan var orðin frekar þreytt þegar hún lenti aftur í sveitinni um hálf tvö.
Sunnudagurinn var tekin rólega, fengum svaka flottan hádegismat á Vindási sem voru afgangar frá veislunni sem þau héldu fyrir bræður Braga kvöldið áður.  Síðan kíktum við á gemsana og hrútana og þreifuðum aðeins á þeim til að sjá hvort geldingin um síðustu helgi hafi heppnast hjá okkur. Þeir eru ansi bólgnir ennþá og segir Guðlaugur að það sé góðs viti um að vel hafi tekist. 
Notuðum tækifærið en Gulli átti pantaðan tíma fyrir Ram-inn í klössun á Ljónsstaði og hengdum Fordinn aftan í hann og komum honum í viðgerð því að við komum honum ekki í gang - vorum samt búin að finna út að líklega væri bensíndælan eitthvað biluð og sögðu Ljónstaðamenn það líklegt það er víst þekktur kvilli í Fordinum en þá tærist eitthvað álbox undir bílnum sem stýringin fyrir dæluna er í. 
Á leiðinni til baka komum við við í Sumarliðabæ og mældum dregarana á húsinu sem á að flytja á Hrauntá, renndum svo í Hrauntá og hæðarmældum púðann undir húsið og komum að lokum við í Flagveltu og Nonni sló verksmiðjunúmer í kerruna hans Valla en það hafði gleymst þegar þeir félagarnir Nonni og Gunnar Már smíðuðu hana.
Síðan er bara að pakka saman og renna í bæinn eftir fréttirnar - frekar fúlt helgarnar líða alltof hratt og vikurnar á milli alltof hægt.
 
 
Comments