Við fórum austur á miðvikudagskvöldið 2. júlí og komum við á Skeiðvöllum, það var opið hús hjá þeim og henti Holla inn nokkrum lopapeysum, taumum og húfum sem hún hafði verið að búa til.
Á fimmtudeginum fórum við með Herborgu á Velli til Sigurjóns en hún fær að vera hjá Eldhestum í sumar í hestaferðum.
Við fórum á Landsmótið á Hellu og þar var þvílík veisla af flottum hestum, við höfum oft verið duglegri að sitja í brekkunni en þetta árið en veðrið var vægast sagt ekki skemmtilegt rok og rigning eða réttarsagt úrhelli.
Vinir okkar Gunnar, Kolla og Ellen á Votamýri 2 slógu heldur betur í gegn á landsmótinu, áttu þriðju hæstu 6v og eldri merina og 6 hæsta 6v stóðhestinn og stálu þar sætinu af öðrum vinum okkar á Lækjarbotnum og svo var Ellen í fjórða sæti í ungmennaflokki - glæsilegur árangur hjá þeim öllum og til hamingju.
Við notuðum versta veðrið til að laga aðeins eldhúsið í bústaðnum og settum borðplötu með öllum norðuveggnum, það verður þvílíkur munur því frúin fær loksins smá borðpláss. Nonni kláraði líka að setja gólflista í eldhúsið og stofuna - þetta er smá að koma hjá okkur.
Helgina 11-13. júlí
Guðrún, Árni, Rakel og Anika komu í heimsókn, Holla fór hring með þau í dýraskoðunarferð, þau skelltu sér með stelpurnar niður að á og fengu þær líka þessa fínu fiska voru þær ekki ósáttar með aflann. Þær veiddu einn 7 ½ punda, eitthvað var hann gráðugur því hann beit á báðar stangirnar í einu kom sér vel að Guðrún og Árni voru með til að draga hann inn.
Rakel með flottan urriða
Gjafar unir sér vel með merunum í haganum en það bættust við tvær hjá honum í vikunni. Reiðhrossin fóru í smá hestaferð með Hellisbúunum til að halda þeim í formi svo Holla komist kannski í eina ferð í ágúst. Elding fékk aftur hófsperru svo við tókum hana úr graðhestagirðingunni og settum hana á vel bitið stykki sjáum hvort hún lagist ekki. Þruma er komin til Jóa í Pulu og ætlar hann að meta fyrir okkur hvort hún er sýningarhæf á síðsumarssýningu það væri gaman að fá á hana þær tölur sem hún á inni að okkar mati.
Árni heilsar upp á Gjafar, Púmba er næst á myndinni og meri frá Gumma þar fyrir aftan
Þann 12. júlí fengum við folald undan Von og Gjafari bæði frá Mið-Setbergi, þetta fyrsta hrossið fætt okkur þar sem við höfum ræktað bæði pabbann og mömmuna og fyrsta folald Vonar - rauður hestur með flotta blesu og fékk hann nafnið Óðinn frá Mið-Setbergi til heiðurs móðurafanum sem er Ægir frá Litlalandi
Von og Óðinn ný kominn í heiminn
Kettlingarnir stækka og stækka en þeir eru að verða svo skemmtilegir. Kanínurnar eru orðnar sáttar í nýja kofanum sínum sem Rakel smíðaði á námskeiði í sumar. Alltaf að verða spakari og spakari.
Kettlingarnir voru alls ekki ánægðir með flassið á myndavélinni og hvæstu og spýttu
Um síðustu helgi skruppum við á ættarmót í Stykkishólmi, veðrið var ekki uppá marga fiska rigning og meiri rigning. Við renndum í kaffisopa til Gunnu og Bjarna að Eiði alltaf gaman að kíkja við hjá þeim. Á Sunnudeginum renndum við austur með tjaldvagninn og útilegudótið allt rennblautt eftir úthelli helgarinnar, kíktum aðeins á hrossin áður en við renndum í bæinn aftur. Bragi var búinn að slá restina af túnunum sem borið var á þannig að það stefnir á að Nonni fari austur í vikunni til að rúlla.