Ýmislegt hefur verið sýslað síðustu helgar, Nonni tók rúlluvélinna og hreinsaði hana í krók og kima og smurði fyrir veturinn.
Við þrifum pallinn og bárum á hann, í þetta sinnið prófuðum við glæra pallaolíu frá Pinotex og notuðum skúringarmoppu til að bera á - það gekk ótrúlega vel.
Olían virka vel allavega til að byrja með - spurning hvort hún endist nokkuð betur en Kjörvarinn
Við skelltum okkur vestur í Kolgrafarfjörð þann 17, ágúst á árlega Sindra Toptul verkfærakynningu hjá Gunnu og Bjarna á Eiði, Holla notaði tækifærið og tíndi nokkur box af berjum í leiðinni.
Hér sést heim að Eiði við Kolgrafarfjörð - flott bæjarstæði og bærinn snyrtilegur
Á Eiði er bílasýning um þessa helgi þegar félagar Bjarna mæta með tryllitækin sín og fara svo rúnt á Grundarfjörð í lok dags
Hér erum við í fjósinu á Eiði - allt til sóma eins og annað hjá þeim hjónum
Við fórum hina árlegu Veiðivatnaferð 22-24 ágúst voru allir krakkarnir með okkur og Magga var með sitt lið þannig að hópurinn var stór. Við fengum frábært veður og veiðin var góð.
Það er fagur yfir að líta við Tjaldavatnið - í baksýn eru Skálavötnin og Langavatn
Við notuðum mánudaginn í að ganga frá og pakka fiskinum.
Helgina 29-31. ágúst tókum við Gjafar úr merunum og fórum með hann í tamningu til Hjartar í Flagbjarnarholt, hann var hinn spakasti - einstakt geðslagið í honum.
Gjafar er óspar á brokkið í haganum þó hann hafi ekki sýnt það mikið sem folald heldur farið mest á tölti og skeiði
Óðinn frá Mið-Setbergi sem er undan Gjafari og Kerru dafnar vel og stækkar hratt
Við renndum síðan niður í Helli og sóttum reiðhestana en þeir eru búnir að vera í smá ferðum og trimmi þar seinnipartinn í sumar.
Holla fór í að taka upp kartöflur og er uppskeran vægast sagt frábær munum varla eftir öðru eins. Nú er bara að finna góðar uppskriftir til að komast yfir að elda öll ósköpin í vetur.
Nonni stingur upp beðin og Holla rótar í og tínir upp karftöflurnar
Kettlingarnir eru að kveðja okkur einn og einn, sárt að sjá eftir þessum dúllum en vonandi fá þeir góð heimili.
Helgina 5-7. september var eitt og annað sýslað, Holla tíndi sveppi í skóginum hjá okkur í Mið-Setbergi og líka uppi á Vörðum, smjörsteikti þá síðan og kom þeim í frysti.
Hún prófaði líka að flétta beisli úr ull sem kemur líka svona vel út.
Fléttað beisli og taumur úr ull með gamla handbragðinu
Nonni var mest í skemmunni þessa helgi við að breyta litlum sendibíl í kerru fyrir Eið í Hrólfsstaðahelli, hann skar húsið framan af og smíðaði lok fyrir endann og setti svo beisli undir hann.
Hér er sendibílakassinn eftir að búið er að skera stýrishúsið af og byrjað að forma lokunina
Helgina 12-14. september
Holla klippti líka angúrukanínurnar og svo tókum við þær með okkur í sveitina, við getum því miður ekki haft þær í bænum því Helgi Páll litli frændi Hollu hefur svo mikið ofnæmi fyrir þeim. Við þurfum að útbúa betri aðstöðu úti í garði til að geta haft þær en vandamálið er að þegar þær eru nýklipptar verður að hafa hita á þeim úti nú eða taka þær inn eins og við höfum gert en það gengur ekki útaf ofnæminu.

Til stóð að taka upp restina af kartöflunum þessa helgi og nú mætti Nonni með leynivopn, hann fékk alveg nóg af því að stinga beðin upp um daginn og smíðaði því kartöfluupptektarvél aftan í massann!!!
Hér er græjan komin aftan í massann og klár í slaginn
Vélin virkar þannig að fremst er skófla sem fer undir kartöflubeðið og svo tekur við karfa sem hristist þannig að moldin dettur í gegn en kartöflurnar leggjast ofan á beðið aftan við vélina - algjör snilld!!!
Kartöflurnar liggja ofan á beðinu eftir að vélin hefur farið yfir - þá er bara að tína þær upp
Hér er video af græjunni í aksjón
Við vorum jafn lengi að taka upp úr sjö beðum eins og að taka upp úr tæplega einu um þar síðustu helgi og uppskeran er rosaleg, við settum niður restar sem við áttum úr einum kassa frá því í fyrra og keyptum einn 5kg poka og fengum rúma 10 fulla kassa
Hér er svo uppskeran þessa helgi - Holla er hugsi, sjálfsagt að velta fyrir sér nýjum uppskriftum
Sunnudagurinn fór svo í að klára að klæða kerruna fyrir Eið
Hér er kerran klár og Eiður og Anna mætt til að sækja hana og stýrishúsið komið á pallinn