Síðasta helgi var frekar róleg. Rok og rigning eins og svo margar helgar í sumar Við vorum frekar seint á ferðinni á föstudeginum og ákváðum að prófa nýja veitingastaðinn í Hellubíói á Hellu, skrýtinn matseðill en ágætur matur og nokkuð kósí staður. Holla var extra ánægð með þjónustuna en þjónninn bauðst til að taka prjónana hennar á meðan hún borðaði svo dampurinn félli nú ekki niður en hún var að hamast við að klára nokkra hestasokka og hestavettlinga upp í pöntun. Við keyrðum svo framhjá Gumma við Hjallanes þar sem hann var að rúlla fyrir Eið, hann var þá búinn að rúlla í Helli og samtals voru það 180 rúllur. Hann rúllaði svo um 50 rúllum á Vellinum á Vindási og þar með er heyskap lokið á Vindási. Sem betur fer náði hann að klára án þess að vélin bilaði því að Eiður á eftir að heyja í Nefsholti. Grasið í Vellinum er fínlegt og tiltölulega lítið sprottið sem hentar einstaklega illa í rúlluvélina okkar en belgkeðjan hefur slitnað nánast árlega þegar rúllan hættir að snúast í belgnum og keðjan rífur utan af henni og dregur tuggurnar með sér og á endanu er allt fast. Við reyndar tókum keðjuna í gegn í fyrra og skiptum um flestar legur og réttum stangirnar sem vonandi er að skila sér núna. ![]() Gummi rúllar á Vellinum Holla kíkti aðeins í sveppamó flottir sveppir en ekki í miklu magni en töluvert um risastóra úrsérvaxna sveppi. Það skrýtna var að það voru nánast engir sveppir í skóginum á Vörðum en slatti í landinu hjá okkur. ![]() Holla með nokkra flotta sveppi sem hún fann við bústaðinn Við lágum fyrir gæs á sunnudagsmorgun og náðum að skjóta helminginn af öllu sem kom í túnið - semsagt það komu tvær og við náðum annari. Við tókum upp nokkrar kartöflur ekki er mikil spretta í garðinum vonandi fer ekki að frjósa strax - þær mættu alveg vera lengur í moldinni. Nonni dyttaði aðeins að hestagirðingunni og gerði m.a. við startarann í Zetornum og setti í hann nýjan rafgeymi og nú dettur hann í gang. Við kíktum aðeins við í kaffi á Botnum áður en að við renndum í bæinn. |
Mið-Setberg ræktunarbú > Dagbók >