Við fórum seinna af stað austur á föstudagskvöldið en oft áður þar sem Pétur Þór litla barnið okkar varð 18 ára og vorum við með smá kaffi fyrir fjölskylduna áður en við lögðum af stað.
Fanney kom með í sveitina en hún hefur ekki komið þangað síðan í vor þar sem hún er búin að vera í Englandi í allt sumar. Laugardagurinn var tekinn snemma og kartöflurnar settar í nýju kartöflugeymsluna sem Vindásfeðgar hafa verið að útbúa í blásaragryfjunni við hlöðuna á Vindási. Við vigtuðum uppskeruna að gamni og reyndust það vera um 250 kg sem komu upp en ekki fóru nema 20 niður - ekki slæm uppskera.
Kartöflurnar í ár voru stórar og flottar
Eftir hádegið fórum við og flokkuðum bleikju úr þremur körum með Lækjarbotna liðinu og var því ekki lokið fyrr en undir kvöldmat, þá var rennt í bústaðinn og elduð nautasteik með lerkisveppasósu en sveppina týndum við á leiðinni í bústaðinn á Vörðuholtinu og að sjálfsögðu voru bakaðar kartöflur úr garðinum. Sverrir var kominn austur en hafði hann komið um miðjan daginn og sátu þau skötuhjú og lærðu það sem eftir var af helginni. Sunnudagurinn fór í smá pælingar með Vindásfólkinu um breidd og lengd á sláturborðinu og skruppum við í Helli til Eiðs og fengum að taka mál af borðinu hans svona til samanburðar. Við kíktum í hesthúsið hjá honum og heldur er sú brúna búin að grennast en honum finnst ganga hægt að létta hana en er mjög ánægður með Herborgu - planið er að fá að sjá þær undir næstu helgi. Seinnipartinn fór svo Nonni á fjórhjólinu og smalaði Tjörvastaðaheiðina og Heysholtshraunið á Lækjarbotnum með Guðlaugi, Nínu, Sigga, Tótu og Billa og á eftir var svo boðið í grill. Eftir matinn var svo bara að taka saman pakka í bílinn og rúlla í bæinn enn ein helgin búin.
|