14. nóvember 2011

posted Nov 14, 2011, 2:27 PM by Jón Pétursson   [ updated Nov 26, 2011, 2:13 AM ]
Á leiðinni austur á föstudagskvöld komum við við á Lækjarbotnum með felgur undir John Deere traktorinn sem keyptur var nýr á bæinn árið 1949 og Gulli er dunda í að gera hann upp.  Gjörðin af annarri afturfelgunni var ryðguð í sundur en Gulla tókst að útvega aðra gjörð og Nonni sauð gömlu miðjuna í hana. Tóti sprautaði svo felgurnar þannig að nú eru þær klára undir traktorinn. Nonni og Gulli fóru svo í Heysholt á fund í hitaveitufélaginu með Guðmundi og Hannesi í Þúfu.
  
Á laugardag fórum við niður í Hrólfsstaðahelli með þéttihring í nýju bjúgnapressuna sem við fórum með austur um síðustu helgi. Eiður prófaði hana í vikunni, var einn að gera hrossabjúgu og það gekk svona ljómandi vel að karlinn brosir núna hringinn og enginn rúmliggjandi eftir að snúa gömlu pressunni...

Eiður pressar hrossabjúgu í langann og fer létt með það

Við kíktum líka á tamninguna á Eldingu sem verður að segjast að gengur ansi hægt, hún er mjög klárgeng og töltið er erfitt fyrir hana en Eiður segir að það sé virkilega gaman að ríða henni og ætlar að reyna eitthvað áfram með hana en svo sjáum við til hvað verður.

 
 
Elding er myndarhross með skemmtilega lund og hefur Eiður eingöngu notað hana þegar hann hefur smalað heimahagana í haust sem verða að teljast meðmæli

Nonni stökk svo beint upp í gröfuna þegar við komum til baka á Vindás og fór með Gumma í að skipta um jarðveg í innkeyrslunni inn í hlöðuna og gróf líka fyrir nýju frárennsli frá henni.
Okkur var boðið í kvöldmat á Vindási og svo í kökuveislu á Lækjarbotna í tilefni af afmæli Gulla bónda - til hamingju gamli! Nonni hjálpaði þeim svo að klippa vídeó sem þau tóku af Nökkva frá Lækjarbotnum og koma því á Youtube sem má sjá hér

Á sunnudag fórum við í að taka til í skemmunni og gera klárt til að setja vélarnar inn í vetrargeymslu og að því loknu var farið í bæinn seint um kvöldið.

Comments