Við skutumst austur á miðvikudag og sóttum Lúkas og Herborgu og rúllu af heyi. Við komum við með þau hjá Eiði í Helli og fengum hann til að járna þau og raspa Lúkas - fín tamning fyrir Herborgu sem aðeins hefur komið tvisvar á kerru áður og aldrei verið járnuð. Þau eru nú komin upp í hesthús í Andvara ásamt Garpi og Kerru en Fanney og Holla fara nú reglulega í reiðtúra á þeim.
Holla og Kerra leggja af stað í reiðtúr frá hesthúsinu
Það var allt annað veður í sveitinni þessa helgi heldur en þá síðustu, nú er vor í lofti og allur snjór farinn og hitinn náði 8°C .
Hrossin okkar og kindurnar á Vindási njóta verðurblíðunnar, að vanda stilla Gulla og dóttirin sér upp fyrir myndatökuna eða kannski þær vonist eftir méli
Við drifum í því á laugardaginn að smíða nýtt hlið inn í landið til okkar en hrossin sem öðlingurinn hann Bragi í Flagveltu á hafa undanfarið dundað sér við að nudda sér utan í það naga og slíta niður. Þegar þessu var lokið fórum við niður í Laugar og hjálpuðum Gulla og Nínu við að flytja einar þrjú þúsund bleikjur þaðan í ker niður á Lækjarbotnum, um fimm hundruð bleikjur í ferð. Við enduðum svo í grillveislu á Lækjarbotnum - ekki amalegt.
Á sunnudag settum við upp nýja rafstöð á girðinguna en sú gamla gaf upp öndina í vetur þannig að nú er stuð í hrossahópnum þegar hann leggst á girðingarnar. Við fórum svo yfir á Vindás og settum heyrúllu á bílinn og sóttum jeppakerruna til að fara með hana í bæinn. Nonni notaði þíðuna og skóf leðjuna sem rollurnar hafa borið með sér af veginum við fjárhúsin.
Pétur eyddi helginni í lærdóminn en gaf sér samt smá tíma til að heimsækja Þórhall í bílskúrinn niður á Lækjarbotna þar sem hann er að vinna í Broncoinum.
|