Á laugardagsmorgun fórum við snemma af stað til að taka tappana úr kindunum sem við settum í fyrir hálfum mánuði, samkvæmt formúlunni eiga þær svo að beiða 50-60 klst síðar eða á mánudaginn um fjögurleitið og verða þær sæddar þá.
Holla fór síðan með Möggu og Braga að baka flatkökur en Nonni reif glussadæluna úr Massanum og komst að því að hvers vegna enginn þrýstingur var á kerfinu - tveir af fjórum stimplum í dælunni reyndust brotnir sem skýrir ýmislegt.
Svo kíktum við í heimsókn til Sigga og Tótu í nýja húsið á Hrauntá og færðum þeim grenitré úr ræktuninni okkar í smá innflutningsgjöf.
Nýja húsið í Hrauntá komið á sinn stað
Nonni og Pétur skiptu um sviss í benzanum og héldu áfram við að reyna að koma honum í gang en höfðu ekki árgangur sem erfiði.
Á sunnudaginn fórum við yfir á Vindás og tókum törn í að baka með þeim kleinur og að því loknu voru smurðar flatkökur en Aníta Eva dóttir hennar Stínu frá Vindási átti árs afmæli og fóru Magga og Bragi í veisluna og höfðu með flatkökur og kleinur. Holla og Fanney fengu að fljóta með í bæinn, búið var að bjóða Hollu á tónleika um kvöldið en hún renndi svo aftur austur að þeim loknum.
Nonni fór á fjórhjólinu niður á Lækjarbotna þegar var orðið bjart til að leita að kindum, en nokkrar rollur höfðu ekki skilað sér þegar hraunið og heiðin vorum smöluð. Tvær kindur fundust á Bjallaheiðinni og rákust auðveldlega undan hjólinu niður á Botna.
Leitað að eftirlegukindum í rigningu og sudda, myndinni er tekin uppi á Moshól og sést yfir Bjallaheiði og Heysholtshraunið
Um kvöldið bauð Gummi Nonna og Pétri í heimalagað saltkjöt og það var algjört nammi - hann er búinn að fullkomna verkunina strákurinn. Strákunum láðist að loka á eftir sér útihurðinni í Mið-Setbergi á meðan þeir voru á Vindási og á meðan hafði mús læðst inn. Lubbi sem nú hefur hlotið viðurnefnið mouseweiler var ekki lengi að flæma hana fram en hún náði að stinga sér undir eldhúsinnréttinguna áður en við náðum henni. Því voru settar gildrur um allt og náðist hún loks inni í skóskáp eftir að Lubbi hafði sýnt skápnum mikinn áhuga.
Við vorum búin að ákveða að taka okkur frí á mánudaginn því nú var komið að því að sæða rollurnar en það klikkaði aðeins því Nonni neyddist að mæta í vinnuna niður í Héraðsdóm Reykjavíkur til að kveða upp dóm á sama tíma og sæðingin fór fram.
Hann tók með sér afturdekkin undan stóra dýrinu því við erum búin að kaupa ný dekk undir hann og verða þau sett á felgurnar í vikunni. Spurning hvort nýju dekkin nái að endast 20 ár eins og þau sem eru undir honum.
Holla og Pétur sáu því um sæðinguna og sæddu 26 rollur með Gumma á Vindási og 10 hjá Valla í Flagbjarnarholti og fóru svo í bæinn um kvöldmat.
Afturdekkin undan stóra dýrinu eru engin smásmíði