Nóg var um að vera um síðustu helgi, við komum við á Lækjarbotnum og færðum þeim lok á heita pottinn þeirra og fengum kaffi og köku í staðinn. Síðan fórum við með ámoksturstækin af Massanum í sprautuklefann á Vindási en þau voru sandblásin fyrr um daginn. Eftir kaffisopa á Vindási var svo farið í bústaðinn.
Laugardagurinn fór í að moka drulluna út úr gerðinu við lambhúsið á Vindási, moka inn í hlöðuna vikri, hreinsa vatnsdalla og gera klárt fyrir féð sem rekið var heim á sunnudeginum. Við gerðum líka lambhúsið klárt og litla gerðið fyrir hrossin.
Allt í drullu...
Við ákváðum um síðustu helgi að taka Eldingu og fara með Herborgu í staðinn til Eiðs og þar sem Elding er búin að vera inní í allan vetur var heldur kalt að setja hana beint í hagann þannig að hún verður í litla gerðinu við lambhúsið meðan hún er að venjast tíðinni.
Við sóttum Herborgu, Tímon og Pumbu úr haganum og hentum trippunum inn í gerðið og fórum svo með Herborgu til Eiðs og tókum Eldingu til baka.
Nú voru 3 afkvæmi Bibbu saman komin í gerðinu - gaman að sjá hversu lík þau eru fyrir utan það að vera öll brún.
Elding, Tímon og Pumba öll undan Bibbu frá Vindási
Fanney og Rakel komu svo austur um kvöldmatarleyti.
Sunnudagsmorguninn var tekin snemma, sú stutta var vöknuð og vildi fara að veiða og amma gamla renndi í ána með henni og lágu 3 sæmilegir fiskar og sú stutta mjög sátt. Um hádegið fóru stelpurnar svo að smala með Nonna og Möggu en þau voru nú reyndar komin með féð heim í gerði þegar þær voru loksins búnar að dressa sig upp. Svo var féð rekið inn í hlöðu og vatnað og gefið.
Önnur gimbrin undan Gullu smellir kossi á Rakel
Holla, Fanney og Rakel fóru eftir kindastússið inn í bústað og tóku á móti Guðrúnu mömmu Hollu, Helgu systur og krökkunum hennar en þau voru að koma af tónleikum á Selfossi. Ekki var veðrið skemmtilegt þennan daginnn hávaða rok og gekk á með éljum. Seinnipartinn fórum við í smá bíltúr með krakkana og þau skoðuðu bústofninn á Lækjarbotnum - ekki fannst þeim leiðinlegt að skoða kanínur, hænur, lynghænur, kindur og hesta.
Á meðan fór Nonni í að sprauta grunni á ámoksturstækin af massanum.
Grunnurinn kominn á tækin, þá er bara að sprauta rauða litnum um næstu helgi
Kvöldmaturinn var ekki af verri endanum, lambalæri með bökuðum kartöflum og piparsósu og eftir að við vorum búin að liggja aðeins á meltunni og veðrinu aðeins að slota var rennt í bæinn á þremur bílum í lest.