13. júní 2011

posted Jun 13, 2011, 12:20 PM by Jón Pétursson   [ updated Jun 14, 2011, 3:08 PM ]
Við fórum í sveitina seinnipartinn á föstudaginn og komum við í Votumýri og fengum lánaða segulborvél hjá Gunnsa, hann var reyndar ekki heima var farinn í sleppitúr frá Skógarhólum.
Laugardagurinn var tekinn snemma og girðingarvinnu haldið áfram. Nonni hafði smíðað snilldargræju í vikunni sem er búin að fá nafnið Hjónabandssælan, en það er glussatjakkur sem er festur á traktorsskófluna sem rekur niður staura. Það gekk rosa vel að renna staurunum niður hjá þeim Trausta og allt þráðbeint og lóðrétt og þeir voru ekki nokkra stund með 250 staura.
 
Hér er sælunni stillt upp fyrir næsta staur, svo er tjakkurinn dreginn upp og staurnum stungið undir og svo rekinn niður - á hinni myndinni er hún í flutningsstöðu
 
Bragi hélt áfram að setja netið og Holla, Magga og Aníta bundu upp. Nonni sótti svo tvo sturtuvagna út í hraun á Lækjarbotnum og setti til hliðar við pípuhliðið á Vindási og tók svo pípuhliðið upp og mokaði undan því og lagaði. Nú verður loksins sett almennilegt hlið við pípuhliðið.
 
Á Sunnudagsmorguninn þrifum við pottinn sópuðum laufblöðum af pallinum í heilan ruslapoka úr grillkofanum þvoðum grillið og garðhúsgögnin en allt var í ösku og drullu. 
Nonna fæddist á sunnudagsmorgun rautt hestfolald undan Vímu frá Lækjarbotnum og Arnoddi frá Auðsholtshjáleigu en hann fékk að halda Vímu sem gjöf frá Lækjarbotnum þegar hann varð fimmtugur. Við röltum okkur út í haga og kíktum á folaldið hann er náttúrulega hrikalega flottur, merin er skemmtilega gæf svo að við fengum aðeins að knúsa litla krílið en sáum þá að merin var ekki orðin heil þannig að hún var teymd heim og dýralæknir fenginn til að losa hildirnar.
 
Hér er Víma með litla prinsinn sem var strax nefndur Örvar-Oddur, svo er að sjá hvort það haldist - hér eru fleiri myndir
 
Við fórum eftir hádegi með Kerru niður í Neðra-Sel undir Kóral frá Lækjarbotnum og fórum einnig á Minni-Velli með meri fyrir Guðlaug undir Arð frá Brautarholti og sóttum svo aðra á Lækjarbotna og fórum líka með undir Kóral. Kórall var sýndur í vikunni á Hellu og fór í súpereinkunn 8,23 fyrir byggingu og 8,68 fyrir hæfileika. Hann var með 9,0 fyrir brokk, vilja og geðslag, fegurð í reið og hægt tölt. 8,5 fyrir tölt, skeið og fet og í aðaleinkunn var hann með 8,50 - til hamingju Gulli og Nína!
 
Jói í Neðra-Seli kemur með Kóral til að sleppa honum í merarnar 
 
Seinnipartur sunnudags fór í girðingarvinnu og eins fyrriparturinn á mánudeginum. Seinnipartinn á mánudaginn bar Nonni á túnin við bústaðinn á Massanum eftir að hafa smíðað festingu fyrir áburðardreifarann á hann og allt gekk eins og í sögu. 
 
Nonni á Massanum með áburðardreifarann
 
Holla, Magga og Bragi notuðu tækifærið þegar hlýnaði í veðri og settu niður kartöflur í garðinn sem er niðri við Þjórsá. Við eigum reyndar enn nóg af karftöflum frá því í fyrra enda var metuppskera hjá okkur þá. 
Síðan var bara að taka saman og skella okkur í bæinn... 
 
Comments