Eftir vinnu á föstudag var slegið upp veislu í Veislusal Ásvallalaugar í Hafnarfirði í tilefni af 90 ára afmæli Jónínu mömmu Nonna. Það var margt um manninn og komu liðlega 100 manns. Veislan heppnaðist vel í alla staði og sú gamla ótrúlega hress og kát.
Um kvöldið rúlluðum við austur og tókum með okkur fyrsta farm af rúlluplasti fyrir sumarið. Eftir að hafa losað plastið af á Vindási og sötrað einn kaffibolla yfir spjalli fóru hjúin þreytt í bælið.
Laugardagurinn fór í snatt, litla Dýrið var sótt út á Vindás þar sem komið var að slætti en ekki stoppaði rigningin um helgina svo slátturinn bíður næstu helgi - en vætan er góð fyrir sprettuna og heldur öskunni í skefjum.
VIð ákváðum að nota vætuna til að valta flatirnar sem létu töluvert á sjá eftir umferð í vor áður en frostið var farið úr og fengum við Gumma til að skutla gamla valtaranum yfir til okkar. Ekki er pláss til að valta flatirnar með stóra traktornum og Nonni búinn að rífa Massan til að laga glussadæluna þannig að í fyrstu var fjórhjólið var sett fyrir hann en það gekk ekki saman því lykkjan á beislinu á valtaranum er það stór að það náði að spennast fast í beygjum. Þá var litla Dýrið tekið fram og þá gekk völtunin eins og í sögu og var valtað þrjár umferðir - það eru trúlega ekki margir sláttutraktorar sem ráða við valtara sem er eitt tonn en John Deere fór nú létt með það.
Beislið fast í beygju á fjórhjólinu og á hinni myndinni er valtarinn kominn aftan í litla Dýrið og búið að valta flatirnar
Við kíktum til Grétars og Betu með Myrku litlu í smá kynningu ekki fannst þeim leiðinlegt að leika sér Myrku og Heklu þeirra sem er sex mánaða Snowser, vonandi verða þær bestu vinkonur.
Það gekk mikið á þegar Hekla og Myrka léku sér og engin leið að ná þeim á mynd - það var líka gott að hvíla sig í mjúkum mosanum í Setbergjunum á eftir
Á laugardeginum komu svo Sigga, Jan, Edda, Bob, Anna og Óli og grilluðum við lambalæri um kvöldið og áttum kósýstund yfir spjalli.
Sunnudagurinn fór í að smala hrossastóðinu heim sortera það frá það sem átti að fara í hagann og svo tókum við Tímon litla frá og fórum með hann til Guðlaugs og Jónínu þar sem á að gelda hann á þriðjudag. Reiðhestarnir verða áfram í hestagirðingunni. Edda og Bob féllu gjörsamlega fyrir heimalningnum og langaði mest til að taka hann með sér heim til Skotlands.
Edda gefur heimalningunum pela en Móri, Orri og ein kindin fá mél hjá Bob
Við dunduðum okkur svo fram eftir degi við að smíða festingar fyrir áburðardreifarann á fjórhjólið og koma mótornum á honum í lag og bera á flatirnar við bústaðinn.
Áburðardreifarinn kominn aftan í fjórhjólið og búið að laga Lödu miðstöðvarmótorinn sem kastar áburðinum
Við fórum í fyrra fallinu í bæinn þar sem gestirnir sem eru búnir að gista alla vikuna fara utan í nótt, við komum við á Botnum á leið í bæinn og fékk frúin nýflakaða bleykju til að elda í mannskapinn ásamt skammti til að senda með til Skotlands. Bleikjan sló rækilega í gegn hjá skotunum - takk kærlega fyrir það Gulli og Nína!