13. apríl 2009

posted Apr 13, 2009, 2:36 PM by Jón Pétursson   [ updated Apr 13, 2009, 5:18 PM ]
Föstudagurinn var strembinn hjá Nonna og stóra Dýrinu, þeir voru ásamt Guðlaugi og Sigga að keyra inní gömlu fjóshlöðuna hrauni og vikri - nú á að gera reiðhöll á Botnum! Frúin var í þrifum á sumarbústaðnum á meðan.
 
 
Þegar fór að kvölda lægði alveg þannig að frúin skellti sér einn hring á hestbaki en Abel, Garpur og Lúkas höfðu fengið að fljóta með okkur austur yfir páskana og fengu að gista í hesthúsinu hjá Helgu og Valla í Flagveltu.
 
Á laugardaginn fórum við á mikla stóðhestaveislu í Rangárhöllinni ásamt Jónínu, Guðlaugi; Þórunni frá Botnum og tengdasyninum Sigga - frúin fór með penna meðferðis því nú átti ekki að klikka á að merkja við þann eina rétta. Hestarnir runnu í gegn hver öðrum flottari, þegar sýningin var búin var blaðið vel út krotað og ansi margir á óskalistanum - greinilegt að við eigum ekki nóg af merum!
Þeir sem okkur fannst bera af voru  Vilmundur frá Feti með glæsilegan afkvæmahóp, Þröstur frá Hvammi, Hnokki frá Fellskoti, Glymur  frá Innri-Skeljabrekku - þvílíkir hæfileikar og flottur litur - og einn sem vert er að skoða í sumar er Ketill frá Kvistum, á von á að hann fái góðar einkunnir.  Stæll frá Miðkoti var sýndur með afkvæmum og fannst okkur Spói frá Hrólfsstaðahelli bera af í þeirri sýningu.
 
Í Flagbjarnarholti eru komnir litlir tvílembingar undan drottningarlambi síðasta árs, ekki var von á lömbum á bænum fyrr en um mánaðarmótin apríl-maí - það hafa greinilega verið frjálsar ástir á fjárlitasýningunni í fyrra.
 
Alltaf kemur pínu vor með fyrstu lömbunum
 
Ekki var almennt mikið veður til útreiða um páskana - bölvað norðan rok - þannig að inniaðstaðan hjá Helgu og Valla í Flagveltu kom sér vel. 
Holla á Garpi frá Sauðárkróki í reiðhöllinni í Flagbjarnarholti
 
Sunnudagurinn fór nú að mestu í slökun fyrir utan að við sóttum litla Dýrið niður á Botna en hann var í sléttun á nýja gólfinu í reiðhöllinni ásamt Nonna á laugardagskvöldinu. 
Heimilisfólkið á Botnum var önnum kafið við að taka folöldin undan hryssunum þegar við komum.
 
Holla, Nína, Billi, Siggi og Þórunn með Heklu gömlu
 
Um kvöldið var okkur boðið í páskamat á Vindás a la Gummi - reyktur lax og risarækja í forrétt lambalæri með öllu í aðalrétt og ís í desert, nammi namm.
 
 

Vindás í Landsveit með Heklu í baksýn 

 
Dagurinn í dag byrjaði snemma, Eiður kom um 9 í morgun og járnaði klárana.  Veðrið var með besta móti þannig að frúin skellit sér á skeifnasprett á Lúkasi að því loknu á meðan Nonni fór á stóra Dýrinu niður að á og mokaði möl upp ásamt Braga bónda, síðan hífði hann nokkra bagga frá í fyrra út fyrir rúllustæðuna sem fara svo í útiganginn.
 
Okkur fannst fríið líða heldur hratt og vorum frekar súr þegar við rúlluðum í bæinn undir kvöld...