13. ágúst 2012

posted Aug 13, 2012, 3:16 PM by Jón Pétursson   [ updated Aug 13, 2012, 4:26 PM ]
Ekki er frúin alveg komin í gír með bloggið en það stendur til bóta vonandi. Nonni er búinn að vera í fríi síðustu tvær vikur og hefur haft nóg fyrir stafni í sveitinni. Hann byrjaði vikuna á að fara með Þrumu til dýralæknis þar sem hún helltist svo að hún steig ekki í fótinn og eftir að hleypt var út úr hófnum og hún sprautuð með pensilini fékk hún að vera hjá Eið í Helli en hann sprautaði hana fyrir okkur restina af skammtinum og svo höfum við haft hana í hestastykkinu við fjárhúsið undir eftirliti og er hún að verða óhölt. 
Nonni fór í Lunansholt og rúllaði fyrir Guðlaug einar 95 rúllur. Hann lagði rafmagn í skemmuna, lagaði beislið á ruddavslátturvélinni, handbremsurna og fl á Cherokeenum sem við vorum að kaupa til að snatta á í sveitinni.  Hann fór líka í Heysholt hirti rúllurnar og staflaði upp í stæðu. 

Um verslunarmannahelgina var Holla líka komin í frí. Á laugardag fórum við og rákum inn féð og rúðum það og gáfum ormalyf með Vindásbændum.
Um kvöldið fengum við nokkra sveitunga frá Austvaðsholti, Helli, Botnum, Heysholti, Vörðum og Vindási í grill og brennu eins og undanfarin ár mikið gaman og góður félagsskapur. Fanney og Sindri, Guðrún og Árni komu líka. Á brennuna komu líka Grétar og Beta með sitt lið.

 
Það var mikill hiti í brennunni þetta árið enda allt skrjáfþurrt og þorðum við ekki annað en að hafa tilbúinn vatnstank ef illa færi

Nonni hellulagði gólfið undir milliloftinu í skemmunni setti upp hillur og fleira þannig að nú er eins víst að hann fari að flytja þangað...
Holla skellti sér í hestaferð með Eið og Önnu ásamt fríðum hópi fólks frá Hrólfsstaðahelli með ein 65 hross í rekstri og var fyrsta dag riðið í Réttarnes og þaðan í Skarð. 
Næsta dag var riðið í Lambhaga og Skarfanes, upp í Tröllkonuhlaup og þaðan yfir í Áfangagil og gist þar. Nonni skellti sér á laugardagskvöldið og hitti hópinn þar og trússaði svo með þeim á sunndag.

Skálinn í Áfangagili er gamall burstabær sem búið er að gera upp

Síðan var riðið um Bjallahraun upp Hekluhlíðar í Skjólkvíar og svo um Nýjahraun að Krakatindi austan við Heklu, þaðan austan við Vatnafjöllin með hraununum frá 1980 og 1990 niður Langvíuhraun og en þar urðum við að skilja við hópinn og fara í bæinn til vinnu - það var frekar svekkjandi að ná ekki að fara alla leið en hópurinn hélt svo áfram í skálann í Hungurfitjum við Rangárbotna Eystri-Rangár og gisti þar.

 
Það er ægifagurt í hraunum við Heklu en mikið á fótinn og því erfitt fyrir hrossin

Á mánudag ætlaði hópurinn í Foss við Eystri-Rangá og á þriðjudag eftir svokallaðri Kirkjuleið (minnir mig að hún heiti) yfir Ytri-Rangá í Hrólfsstaðahelli. 
Comments