12. október 2012

posted Oct 11, 2012, 6:25 PM by Jón Pétursson
Nú hefur frúin ekki verið að standa sig í dagbókarskrifunum - sennilega allt of mikið að gera.

Helgina 29 og 30 september skelltum við okkur vestur að Skjaldfönn við Ísafjarðardjúp með hópi úr sveitinni sem í voru ásamt okkur, Bragi, Magga, Gulli, Nína og Siggi. Þetta var svakalega skemmtileg ferð og við keyptum tvær gimbrar en Gulli, Nína og Siggi fóru heim með fjórar gimbrar og tvo hrúta. 

Frá Skjaldfönn

Aðra gimbrina völdum aðallega vegna litarins en hún er mó-kolótt eða mó-golsótt sem er ekki algengur litur, hún er þrílembingur sem missti móður sína um sumarið og virkaði pínulítil í hópnum fyrir vestan og hin svona meðalstór fallega grá. Þegar heim var komið var sú litla alls ekki lítil og hin með þeim stærstu á Vindási.

Gibburnar tvær sem við keyptum fyrir vestan eru hér á miðri mynd í hópi lífgimbranna á Vindási

Á sunnudeginum var fjárlitasýningin árlega, var hún haldin í Árbæjarhjáleigu þetta sinn. Við vöknuðum eldsnemma og smöluðum heim, tíndum frá nokkrar kindur til að fara með á sýninguna. Aldrei hefur verið fleira fólk og enn bættust bæir í hópinn. Rakel, Árni og Guðrún komu með og var sú stutta pínu svekkt að fá ekki verðlaun. Hún á þessa fínu kind með gullfalleg lömb þetta árið. Hægt er að sjá myndir frá sýningunni með því að smella hér

Hér eru ær með afkvæmum frá Mið-Setbergi og Vindási - þrjár systur undan Gullu okkar með lömbunum sínum

Við gáfum uppboðsgimbrina til styrktar félaginu þetta árið og bauð Þröstur á Varghól hæst, hann er ekki með fé sjálfur þannig að hún fær að vera áfram á Vindási - allavega fram á vor.

Þröstur með gimbrina sem er mó-botnótt-flekkótt

Um síðustu helgi var smalað aftur öllu rennt í gegn um rennuna góðu og lambhrútarnir teknir frá og lífgimbrar valdar.  Sláturbíllinn kom svo á sunnudeginum og fóru 160 stk með honum í þetta skiptið en gimbrarnar eiga að fara seinna.

Bragi og Gummi lesa af, Magga ritar, Nonni á hliðinu og Holla, Villí og Sverrir reka inn í rennuna

Við fórum líka til Palla og Ásu á Fossi og keyptum af þeim tvær hvítar gimbrar undan sæðingarhrútunum Hriflon og Borða - báðar sterkar í baki og með 18 fyrir læri.

Á mánudeginum hentumst við austur eftir vinnu, Óðinn og Eyjólfur ráðunautar voru mættir til að stiga líflömbin hjá okkur. Við vorum mjög sátt góð stigun í heildina - mjög jafnar gimbrar þetta árið. Besta gimbrin með 156,5 stig reyndist vera undan sæðingarhrútnum Fannari og henni Blettu okkar sem er Gulludóttir - þetta var eina gimbrin sem við fengum úr sæðingunum þetta árið þannig að það hefur tekist vel til.

Veturgömlu hrútarnir voru stigaðir aftur og bar Grábotnasonurinn Gráni okkar af hann er komin í 85 stig þar af 9 fyrir bak 9 fyrir malir og 18,5 fyrir læri, hann er með 40mm ómvöðva og 5 í lögun - gerist vart betra. 
Bikar sem líka er undan Grábotna var slakari enda hefur hann fengið drullu í haust og lagt af en stigaðist samt 82 stig með 9 fyrir bak (ómvöðvi 39 og lögun 5) og 8,5 fyrir malir en er kominn niður í 17 fyrir læri. En lömbin undan þeim báðum eru rosalega flott.

Gráni er myndarhrútur með eindæmum vel byggður og ljúfur - hann veit fátt betra en að láta kjassa sig og klóra

Comments