12. júlí 2013

posted Jul 12, 2013, 4:15 PM by Jón Pétursson   [ updated Jul 12, 2013, 4:21 PM ]
Eitthvað hefur frúin verið að gleyma sér við að færa í dagbókina - allt of mikið að stússa. 
Fanney okkar átti afmæli þann 26. júní og varð hún 24 ára erum ekki alveg að átta okkur á þessu - skrítið hvað hún eldist en ekki við - til hamingju með daginn elsku Fanney. Í því tilefni buðum við í smá matarveislu, vorum við svo heppin að Sigga systir Nonna og Jan maðurinn hennar komu þar sem þau eru í stuttu stoppi á landinu. Sigga var svo elskuleg að kaupa notaðan rokk fyrir Hollu í Skotlandi og kom með hann með sér - nú er setið við flest kvöld og spunnið. 
Við erum búin að dunda sitt lítið af hverju í sveitinni, slá blettinn við sumarbústaðinn og á Vindási og bárum aðra umferð af pallaolíu á pallinn og fleira og fleira
Við erum búin að taka rúlluvélina út úr skemmunni og smyrja og ditta að henni. 
Við sóttum kettlinginn í Helli - algjör dúlla. 

Kisa litla naut ferðarinnar í bæinn og fylgdist vel með umferðinni

Eplatrén blómstra núna og það verður spennandi að sjá hvernig uppskeran verður í haust.

 
Flugurnar hamst við að frjógva eplatrén  

Við skutumst líka austur einn seinnipart í síðustu viku þegar Krókur var geltur ásamt fleiri tittum á Lækjarbotnum. Krókur frá Mið-Setbergi er veturgamall vel þroskaður stór og stæðilegur undan Kóral frá Lækjarbotnum og Kerru frá Álfhólum.

Síðasta stundin með kúlur...

Nonni notaði tækifærið og rúllaði 40 rúllur á Vindási þar sem við vorum komin í sveitina og heyið sæmilega þurrt. 

 
Rúlluvélin virkaði flott - sjö níu þrettán - þéttar og vel lagaðar rúllur þannig að það hefur tekist vel hjá okkur að stilla hana síðasta sumar

Guðrún, Árni og Rakel komu í bíltúr um síðustu helgi - fóru á Gullfoss og Geysi og svo varð aðeins að kíkja við og fá smá mömmumat áður en þau héldu í bæinn.
Nonni tók stóra John Deere og smurði hann og dittaði að ýmsu smávægilegu - betra að hafa allt í toppstandi fyrir heyskapartíðina. Svo bar hann áburð á flatirnar við bústaðinn og ruddi úr nokkrum þúfum við bílastæðið og bar í möl þannig að nú verður auðveldara að koma sláttutraktornum á bakvið hús.

 
Massinn tekinn til kostanna við að bera á flatirnar og moka við bílastæðið

Holla tók törn og kláraði að prjóna og setja rennilása í þrjár hestapeysur sem við fórum svo með á Skeiðvelli á heimleiðinni.
Annars er veðrið búið að vera hundleiðinlegt rigning, rigning og aftur rigning og rok sem dregur úr manni allan mátt.
Comments