Við fórum austur á föstudagkvöldið og komum fyrst við á Lækjarbotnum með eina kanínuna hennar Hollu, hún hafði verið illa bitin af hinum tveimur þannig að sambúðin er ekki alveg að ganga.
Á laugardeginum fórum við yfir á Vindás með hestakerruna til að sækja Eldingu út í haga en hún var draghölt og lá frekar en að standa.
Niðri við hlið hafði Svenni í Flagbjarnarholti misst traktorinn út af háum vegkanti og var hann við það að velta. Nonni sem var á traktornum var ekki í vandræðum með að kippa honum upp á veginn.
Massinn hjá Svenna kominn upp á veg
Hlaðist hafði í hófa á Eldingu þannig að hún stóð nánast á stultum en svo verður að koma í ljós hvort hófsperran sem hún fékk í vor er að há henni eða hvort hún jafnar sig, við komum henni fyrir inni í hesthúsi á Vindási og gáfum henni verkjalyf.
Það er frekar köld vistin hjá hrossunum núna en þau virðast vel haldin og ekki hnjúskuð
Við fórum svo með kerruna niður á Lækjabotna og fengum Gulla og Nínu með okkur út í graðhestagirðinguna við Þúfu sóttum Gjafar og fórum svo með hann í áframhaldandi tamningu til Hjartar í Flagveltu. Ekki náiðist að koma múl á Gjafar í haganum og frekar en að láta hann komast upp með að slíta sig lausan rákum við graðfolana inn í aðhaldið vestan í stykkinu, þar gekk eins og í sögu að koma á hann múl og svo teymdum við hann til baka.
Gjafar og félagar skokka létt inn í aðhaldið í graðhestagirðingunni.
Á sunnudeginum var slappað af fram yfir hádegi, Nonni vann í tölvunni en Holla púslaði. Síðan var pakkað saman og lagt af stað í bæinn og eins og áður var allt á kafi í snjó - eins gott að traktorinn var inni í bústað útilokað að við hefðum komist hjálparlaust út á veg. Núna var það mikill snjór að ekki hafðist að ryðjast í gegnum hann heldur var Nonni dágóða stund að moka snjónum til hliðar Við komum við á Vindási og kíktum á Eldingu, hún var lítið skárri að sjá en tíminn leiðir í ljós hvort hún jafnar sig. |
Mið-Setberg ræktunarbú > Dagbók >