Nú er orðið langt síðan við færðum síðast í dagbókina - hmmm - ekki neitt búið að vera að gera í sveitinni nema afslöppn og kósíheit og kanski tími kominn til. Nonni kom reyndar með tvær nýjar skóflur á gröfuna og mátaði þær á hana.
Stærri tennta skóflan komin á gröfuna, hin er aðeins 45cm breið og upplögð í lagnaskurði
Þessa helgi lifnaði aðeins yfir hlutunum. Holla byrjaði helgina á föstudaginn og skellti sér á námskeið á Stóra Ármóti fékk margt að vita um fóðrun sauðfjár, frábært námskeið í alla staði þar sem farið var yfir fóðrun, hvenær er best að gefa fóðurbætiefni og besta tímann til að gefa ormlyf og svo framvegis. Einnig var hlaupið yfir helstu sjúkdóma og var líka farið vel yfir hvaða aldursskeið eru viðkvæmust og hvað ber að varast á hverju aldurskeiði. Einnig var farið yfir grastegundir og landbeit.
Við komum við á Lækjarbotnum á föstudagskvöld í kaffisopa og spjall og smá hvolpaknús, það er með ólíkindum hvað tíkurnar eru fljótar að stækka.
Á laugardaginn fór Nonni niður á Lækjarbotna að skækja hestakerruna og vélarstandinn en hann ætlar að fara að kíkja á Willys vélina, Gulli og Siggi voru að taka á móti laxaseiðum í nýju fiskeldiskerin.
Nýju kerin eru rétt sunnan við bæinn og taka vatn úr lind sem kemur þar undan hrauninu Gulli hafði hafði sett gamla John Deere traktorinn sem keyptur var nýr á Lækjarbotna árið 1949 á hjólin og rennt honum út svona rétt til að viðra hann og svo stendur til að koma honum í gang við fyrsta tækifæri.
Holla, Magga og Myrka fóru í langan göngutúr á Vindási og settust svo við prjónaskap fram að kvöldmat. Við fengum lambalæri um kvöldið með öllu og ís á eftir ala Gummi.
Sunnudagsmorgun gripum við Þrumu Spóadóttur úr haganum og fórum með hana til Jóa og Theu í Neðra-Sel í tamningu og að sjálfsögðu er tekin stefnan með hana í dóm í vor - spurning hvernig það gengur en hún lofar allavega góðu, töltið laust, brokkið svifmikið og falleg er hún. Ægisdóttirin hennar Hollu bíður fram á vorið og ætlar frúin að taka hana í smá þjálfun samhliða sauðburðinum í vor. Hana vantar svolítið viljann til að það borgi sig að leggja í hana mikla vinnu í vor.
Nonni setti Willysvélina í vélastandinn og tók heddið af og pönnuna undan henni, hún er laus og hvergi að sjá neitt óeðlilegt nema einn ventill er stirður og lokast ekki en það verður nú ekki vandamál. Nonni hefur verið að dunda í Willysinum á kvöldin í bænum og er búið að sandblása og grunna allt boddýið og grindina og er að byrja að ryðbæta - ef vel gengur verður hann farinn að keyra hann í sumar! Spurningin er bara hvort á að halda honum orginal eða fá aðrar hásingar og jafnvel annan gírkassa og millikassa svo hann verði skemmtilegri í akstri og haldi eðlilegum umferðarhraða. Hægt er að sjá myndir af framganginum hér Það er ótrúlega gaman af Gulludætrunum okkar þær koma hlaupandi þegar þær sjá bílinn nálgast fjárhúsið til að fá smá nammi hjá okkur, algjörar dekurdósir sem okkur finnst reyndar ekkert leiðinlegt. Nammi nammi hestakúlur... Nonni þurfti reyndar að reka þær út úr skemmunni og loka þegar þær voru komnar með allar vinkonur sínar með í sníkjuferð - enginn vinnufriður. |
Mið-Setberg ræktunarbú > Dagbók >