12. apríl 2010

posted Apr 12, 2010, 2:34 PM by Jón Pétursson
Það var nóg að gera í sveitinni þessa helgina, öllu fénu var smalað inn í fjárhús, bólusett, sorterað og hluti keyrður heim í hlöðu. Gemsarnir, tvævetlurnar og sæðingarollurnar verða látnar bera heima svo hægara sé að fylgjast með þeim og hjálpa ef illa gengur. Orri forystusauðurinn okkar fékk líka að fylgja með heim en meiningin er að reyna að spekja hann, besta leiðin til þess er líklega að láta hann vera í stíu með mæðgunum Gullu og Tótu sem alltaf eru til í að þiggja mél úr hendi. Við notuðum tækifærið og prófuðum "einsteymislokana" sem Nonni smíðaði í flokkunarrennuna og voru menn sammála um að þeir þrælvirkuðu en aðeins þarf að breyta staðsetningunni og þá verða þeir pottþéttir.
 
 
Kindurnar bíða þolinmóðar í flokkaranum góða á meðan Holla tekur símann, Gummi setur lyfið í sprautuna á hinni myndinni og Gulla og Tóta fylgjast vel með
 
Um kvöldið komu Magga og Bragi í kjúklingarétt a la Nonni, frúnni tókst reyndar ekki að raða rétt í fatið en hann smakkaðist nú samt vel.
 
Á sunnudaginn tókum við saman trén sem felld voru um síðustu helgi, hreinsuðum greinarnar af og klipptum þau niður í græðlinga - það var ekki hægt að henda svona úrvals græðlingaefni og svo er bara að finna land til að útbúa vermireit í vor og planta en við höfum eiginlega ekki pláss lengur hjá okkur í Mið-Setbergi.
 
Grisjun í gangi
 
Seinnipartinn sóttum við Abel í hagann og fórum við með hann til Eiðs í Helli í járningu og röspun og tókum hann svo með okkur í hesthúsið í bænum.  Kalli vinur Guðrúnar okkar og Árna ætlar að þjálfa kappann fram á vorið svo er bara að sjá hvort ekki fáist kaupandi þegar hann er kominn í form.
Eiður er bara ánægður með Herborgu segir hana fara vel af stað í tamningunni en svo er bara að krossa fingur og vona það haldist, hann var líka ánægður með fortamninguna sem hún fékk hjá okkur og hafði á orði að það væri nú munur ef hann fengi öll frumtamningarhross svona tilbúin.
Enn og aftur helgin búin og vinnuvikan framundan.
 
Comments