Fórum seinnipart miðvikudags í sveitina, nú voru þéttsetnir dagar framundan. Við byrjuðum á því að smala túnin á Vindási inní fjárhús og nutum þar dyggrar aðstoðar Orra forystuhrúts sem kom sér vel því við vorum bara tvö. Þegar því var lokið keyrðum við niður í Þjóðólfshaga og sóttum þrjá lambhrúta, tvo veturgamla og einn tveggja vetra hrút sem voru þar í mælingu. Gummi hafði farið með þá í kerru á traktornum en eitthvað var hann að stríða honum og stóð kyrr og vildi hvorki afturábak né áfram. Mælingin á hrútunum kom vel út og fengum við einn lambhrút úr sæðingu undan Prjóni sem stigaðist 86,5 stig sem er víst einn af hæst stiguðu hrútum á svæðinu samkvæmt ráðunautunum.
Um kvöldið fóru Nonni og Bragi með traktorinn í á verkstæðið á Rauðalæk og Holla Gummi og Magga drógu frá lífgimbrarnar sem skyldu fara í mælingu á fimmtudaginn.
Fimmtudagsmorguninn fór í að vatna og gefa gimbrunum, kíkja á hitaveituskúrinn og setja hlerann fyrir eftir smá viðgerðir en það hafði gefið sig rör í skúrnum þannig að þar var allt á floti í byrjun vikunnar. Síðan héldum við til Valla og Helgu fengum okkur smá snarl hjá þeim og smöluðum síðan túnin með þeim og aðstoðuðum við að draga frá gimbrarnar sem þau ætluðu með í mælingu. Um þrjúleitið renndum við með lífgimbrarnar okkar í hestakerrunni niður á Lækjarbotna og byrjuðum á að vikta hópinn, Valli kom á hælana á okkur og var hans hópur viktaður líka. Um fjögur mættu ráðunautarnir og þá fór mælingin af stað en voru þetta þrír hópar eða frá okkur, Valla og Helgu og Lækjarbotnum - alls um 120 stk. Við vorum nokkuð kát með niðurstöðuna úr mælingunum, gaman að sjá að stofninn er að styrkjast í gerð. Mest höfðum við gaman af hve vel litlu systurnar undan Litlu botnu stiguðust, báðar sterkar í baki með litla fitu og vel lagaðan vöðva og 17,5 og 18 í læri - önnur er grámórauð og hin botnótt og báðar eru saffranóttar eins og Kristinn í Árbæjarhjáleigu kallaði þær á litasýningunni en það er víst litaafbrigði svipað strípum í enda ullarinnar.
Verið að ómmæla bakvöðvann og fitulagið en þuklarinn stendur og bíður eftir gripnum og Nína skráði tölurnar - hin myndin er af systrunum undan Litlu botnu á litasýningunni
Á föstudaginn skruppum við á Selfoss með Fordinn í skoðun og útréttingar fyrir slátrun og sitthvað fleira. Við kíktum svo á bakaleiðinni á landbúnaðarverslunina í Gunnbjarnarholti á Skeiðum en vorum nú ekkert uppveðruð yfir því sem við sáum.
Seinnipartinn var komið að heimaslátruninni og voru allir komnir í startholurnar og átti að fara að taka fyrsta holl þegar kom upp smá vesen með talíuna þar sem hún sló út ef hífa átti eitthvað út á hlið og var því var nú reddað í hvelli og hún færð beint yfir fláningsborðið. Þetta árið voru Villí, Sverrir og Helgi Snær mætt ásamt okkur og Vindásbændum - samhentur hópur. Slátrunin gekk vel og nýja fláningsborðið reyndist algjör bylting.
Gummi losar af lappirnar og sker fyrir og losar af leggjunum svo er bara að krækja gærunni í borðið og hífa skrokkinn úr gærunni
Eftir slátrun um þrjú um nóttina var skundað inná Vindás og fékk hópurinn pulsur, bacon og egg - snemmbúinn english breakfast.
Laugardagurinn fór í sláturgerð og einnig voru klipptir og sviðnir hausar.
Nonni sveið hausana en Bragi klippti
Á sunnudaginn var farið í að úrbeina rollurnar sem fara í kjötfars, hluta og pakkað kjötinu sem fer í hangikjöt og pakka hluta af af lömbunum. Að þessu loknu eldaði Holla svínabóg á Vindási fyrir liðið.
Villí, Sverrir og Holla úrbeinuðu rollurnar
Eftir matinn var tiltekt í bústaðnum og á á leið í bæinn komum við við á Lækjarbotnum og tókum bleikju með okkur í bæinn.