Um þar síðustu helgi fórum við austur á Hellu á fimmtudagskvöld á félagsfund í hitaveitufélaginu sem við erum aðilar að, í stuttu máli sagt leystist fundurinn upp í tóma vitleysu eins og reyndar mátti búast við eftir það sem á undan er gengið í samskiptum borholueigenda við félagið.
Við ákváðum að lengja helgina og taka okkur frí á föstudaginn þannig að við fórum inn í bústað eftir fundinn. Það var ófært síðasta spölinn svo að við skildum bílinn eftir við hliðið og óðum skaflinn heim í kotið, þar var náttúrulega skítakuldi en við náðum fljótt að upp hita með rafmagnsofni og -blásara - það mætti halda að við værum ekki með hitaveitu eða þannig...
Á föstudag fórum við yfir á Vindás og sóttum traktorinn og Nonni mokaði skaflinn inn að bústað og Holla fór með Jónínu á Selfoss í jólainnkaup og í leiðinni keypti hún rennilása í peysur sem hún er að prjóna.

Það klikkar ekki að á hverju ári sest snjó í þessa laut
Á laugardag fórum við í að koma ljósum á jólaseríuna sem hafðist eftir mikla leit að lélegu samband og ónýtum perum og svo hengdum við hana upp á húsið.

Búið að tendra jólaljósin á bústaðnum
Á sunnudagsmorgun fórum við á Vindás og Holla, Magga og Bragi fóru í að baka flatkökur fyrir jólin og Nonni fór í vélaskemmuna og dittaði eitthvað að gröfunni á meðan.
Um þessa helgi fórum við ekki austur fyrir en á sunnudagsmorgun en Sigga systir Nonna og Jan maður hennar voru í helgarferð á landinu og buðu öllum systkinunum og systkinabörnum í jólahlaðborð á hótel Natura á laugardagskvöldinu, það var virkilega skemmtilegt og góður matur - takk fyrir okkur Sigga og Jan!
Veðrið frá kvöldinu áður var gengið niður og nú var hitastig við frostmark og logn, æðislegt eftir kuldann sem hefur verið undanfarið.
Um hádegið fórum við í að taka tappana úr kindunum þannig að við sæðum þær á þriðjudagskvöld. Við gripum Sigga á Botnum þegar hann keyrði hjá og fengum hann til að setja botnótta gemsann okkar á pallinn hjá sér og fara með hann undir mórauðan lambhrút sem kemur frá Minni-Völlum og verður á Botnum.
Svo fórum við til Eiðs í Helli með töng sem Nonni hafði pantað fyrir þau og á að nota til að hefta fyrir endana á bjúgum. Við fórum svo í kaffi á Botnum og eftir viðkomu á Vindási renndum við í bæinn.