Holla og Fanney héldu hestaferðinni áfram síðasta miðvikudag og fimmtudag, á miðvikudaginn var riðið í ágætis veðri frá Bjólu í Þykkvabæ yfir Ytri-Rangá og svo yfir Þverá og niður að Grímsstöðum í Vestur-Landeyjum þar sem áð var. Á fimmtudeginum var svo haldið áfram í grenjandi stormi og rigningu og riðið frá Grímsstöðum upp að Kanastöðum þar sem við tókum hrossin okkar á kerru og fórum með þau í hagann á Vindási en hópurinn hélt áfram upp í Hlíðarendakot í Fljótshlíð og þaðan átti svo að taka tveggja daga hring um hálendið m.a. inn í Hungurfit og svo heim í Hrólfsstaðahelli.
Hér ríður hópurinn framhjá Grímsstöðum og næsta mynd er tekin þar sem áð var stutt frá Miðkoti, kerran kom að góðum notum í rokinu og rigningunni til að gera nestinu frá Ástu Beggu góð skil og skipta um blaut föt.
Nonni notaði tímann á miðvikudeginum meðan mæðgurnar voru í hestaferðinni og plægði upp 4 hektara tún á Vindási ásamt Braga bónda
Stóra Dýrið var ekki í vandræðum með að draga sex skera plóginn hans Hannesar í Þúfu, eitthvað sem dúkkutraktoranir sem bændur í Landsveitinni almennt eiga ráða ekki við! Plógurinn reyndist reyndar bara vel á sléttu köflunum og sóttum við því fjórskera plóg sem búnaðarfélagið á og gekk betur með hann á ósléttu hlutum stykkisins. Á laugardaginn fórum við svo með tætara og herfi yfir stykkið og sáðum í það og völtuðum á sunnudeginum. Svo er bara að vona að grasið nái að spíra vel fyrir veturinn.
Nonni kláraði að smíða beislið á valtarann sem við steyptum í um daginn og reyndist hann rosa vel, nú er bara eftir að mála hann í grænum og gulum litum og þá á hann eftir að verða enn betri!
Á sunnudaginn fórum við svo í að flokka bleikju með Lækjarbotnafólkinu og fengum þessar fínu pönnukökur með kaffinu á eftir. Annars er ekki komandi við á Lækjarbotnum eftir að Oríon frá Lækjarbotnum varð þrefaldur heimsmeistari á heimsmeistaramótinu í Sviss, liðið þar er orðið svo óþolandi montið... Nei bara djók, til hamingju Nína og Gulli með frábæran árangur í hrossaræktinni - þvílíkur gæðingafaðir fimmgangara sem Gustur frá Hóli er þó hann komist nú ekki í hálfkvist á við Orra karlinn!
|