Við fórum austur seinnipart á miðvikudaginn því von var á mönnum frá Búnaðarsambandi Suðurlands til að mæla lífgimbrar og hrúta á Vindási. Við vorum búin að flokka féð frá sem átti að mæla um síðustu helgi þannig að það þurfti bara að stilla upp borðum og svoleiðis og byrja. Í þetta sinni mældu Grétar og Óðinn og voru snöggir að, rétt rúman klukkutíma með yfir 60 gimbrar og 11 hrúta. Útkoman var bara nokkuð góð og áberandi að gripir úr sæðingunum komu vel út.
Grétar mældi hryggvöðvann, Óðinn þuklar og Holla skráði allt saman
Á föstudagskvöld var farið yfir plan helgarinnar á Vindási en fyrir lá að velja lífgimbrar úr hópnum, smala öllu fénu inn og flokka lömbin frá og senda í sláturhús á sunnudag. Á laugardaginn var leiðindaveður, rok og rigning. Við byrjuðum á að fara yfir gimbrarnar sem búið var að mæla og velja úr þeim lífgimbrar. Svo voru lambhrútarnir skoðaðir og við ákváðum að halda eftir botnótta (84,5 stig) og gráa (85 stig) hrútunum sem báðir eru frá okkur og undan Grábotna og tveimur hvítum undan Hvelli (84 og 84,5 stig).
Lífgimbrarnar höfðu það náðugt úti í nýja gerðinu á meðan ragast var lömbunum og ánum.
Á laugardagskvöldið fórum við ásamt hjónunum á Vindási og Lækjarbotnum á Veiðivatnaveislu í Heklusetrinu á Leirubakka sem haldið var í samstarfi við Veiðifélagið í Veiðivötnum, og var eitt og annað gert til skemmtunar. Meðal annars voru veitt verðlaun í fyrsta skipti fyrir stærsta fiskinn veiddan á stöng í Veiðivötnum sumarið 2011 - stefnt er að því að þetta verði árlegur viðburður. Boðið var upp á fimm rétta máltíð, Fríða Hansen dóttir staðarhaldara á Leirubakka söng af mikilli snilld og Kjartan í Hjallanesi og kvartettfélagar hans sungu og skemmtu.
Kjartan í Hjallanesi formaður veiðifélagsins fór yfir sögu og starfssemi félagsins
Á sunnudagsmorgun byrjuðum við snemma á því að smala öllu fénu inn í hlöðu og flokka lömbin frá. Við vorum rétt búin að því þegar bíllinn kom frá sláturfélaginu að sækja lömbin en ekki komst allt á hann þannig að hann kom aftur seinna og sótti restina. Við fórum svo yfir í Flagbjarnarholt að sækja tvö lömb sem urðu þar eftir þegar við smöluðu helgina áður og nokkrar ær og lömb sem voru komin út í haga við Laugar. Þá var rennt yfir ærnar og valið úr hópnum það sem á að senda í sláturhús. Það var liðið fram á kvöld þegar þessu var lokið og vorum við nokkuð tætt þegar við loks renndum í bæinn eftir kaffisopa og spjall á Botnum.
|