10. maí 2009

posted May 11, 2009, 12:30 PM by Jón Pétursson
Hinn árlegi reiðtúr og kaffisamsæti hjónanna á Lækjarbotnum og í Fellsmúla var í dag í ágætu veðri þó aðeins rigndi.  Hann fer þannig fram að annað árið ríða bændur á Lækjarbotnum upp að Fellsmúla í kaffi og Fellsmúlabændur og taka á móti á miðri leið við Brúarlund og fylgja þeim svo til baka að Brúarlundi og svo hitt árið er það öfugt - þá koma Fellsmúlabændur í kaffi á Lækjarbotnum og þannig er það einmitt í ár - við fegnum að fljóta með í ár eins og í fyrra.
Sigurjón í Fellsmúla reið að Brúarlundi þar sem Guðlaugur, Þórunn, Siggi, Billi og Holla tóku á móti honum og þau riðu svo saman niður á Lækjarbotna í kaffið eða fermingarveisluna væri réttara að segja því Nína beið þar með veisluföng sem hæfðu hvaða fermingarveislu sem er.  Fyrir kaffið var náttúrulega tekin út breytingin á hesthúsinu á Lækjarbotnum og nýja reiðastaðan í fjóshlöðunni og lofuðu Fellsmúlabændur hana í hástert - svo var farin ferð um fjárhúsið og lömbin skoðuð og m.a. spáð í hvaða gripir færu á litasýninguna í haust og ljóst er að stefnir í hörku keppni í ár í furðulitadeildinni á milli bæjanna. 
Að loknu kaffinu riðu Sigurjón og Halldóra svo heim á leið í fylgd Þórunnar og Billa, ótrúlegur karlin orðinn 87 ára og enn á fullu á hestbaki!
Við urðum hinsvegar að drífa okkur heim í bústað til að sinna gestunum, en Þór pabbi Hollu og Anna kona hans voru í heimsókn og fóru meðal annars með Guðrúnu og Rakel niður í á og renndu fyrir silung - og það var ekki að því að spyrja að það var litla veiðiklóin Rakel sem krækti í flottan urriða.