10. janúar 2011

posted Jan 9, 2011, 4:05 PM by Jón Pétursson
Við fórum í sveitina nú um helgina. Ansi kalt var í kotinu þegar við komu en eftir að skipt var um hemil hjá Grétari kólnaði vatnið til okkar um einar fimm gráður og kemur í ljós að ofnarnir anna ekki að hita húsið almennilega þegar útihitastigið er komið niður undir -10°C og vindurinn er 20 m/sek - ljóst er að við verðum að bregðast við með því að stækka ofnana nú eða að hætta að fara austur þegar kalt er í veðri...
Á laugardaginn fórum við í að taka ámoksturstækin af massanum og tókum þau svo með okkur suður til að láta sandblása þau. Ekki tókst að koma honum í gang og reyndist vera vatn í dieselolíunni sem hafði frosið í gruggkúlunni, við drógum hann því upp að Vindási og fengum að stinga honum inn í fjós til að þýða hann. Við lokkuðum næst hrossin inn í gerði og fórum yfir hófana á þeim og skoðuðum almennt ástandið á þeim. Ekki var að sjá að þau væru neitt hnjúskuð eða með hestapestina. Um kvöldið fórum við svo niður á Botna þar sem okkur hafði verið boðið í mat, við sáum um humar í forrétt og Nína eldaði sykursaltað svínalæri sem var af geltinum sem þau höfðu alið síðan í vor og var slátrað núna fyrir jólin - rosalega gott kjöt og gaf reyktu lítið eftir !
Sunnudaginn tókum við rólega og lágum undir teppi fram yfir hádegi og lásum. Við fórum svo í bæinn seinnipartinn.
 
Comments