Helgin 24.-25. nóvember var tekin rólega, Bragi og Nonni voru í hitaveituskúrnum að tengja og prufudæla, eitthvað er að safnast af lofti í dæluna en vatnið heitt og gott. Um morguninn málaði Holla þann hluta skemmunnar sem eftir var og fór svo aðra umferð um kvöldið um miðjan daginn saumað hún rennilása í þrjár peysur og prjónaði með Möggu á Vindási. Á sunnudeginum sprautuðu Holla Magga og Gummi gemsana sem voru eftir seinni sprautunni. Helgina 1.-2. desember fórum við ekki austur fyrr en á laugardeginum Holla var að vinna langt fram eftir á föstudagskvöldinu. Við kíktum við í Flagbjarnarholti hjá Helgu og Valla í smá spjall og kaffisopa. Nonni fór svo í hitaveituskúrinn og kláraði að tengja rörin í dæluna og stytti holurörið sem á að minnka möguleika á að loft myndist þegar þegar vatnið "sýður" eða gufar upp við undirþrýstinginn sem myndast þegar dælan dregur vatnið upp úr holunni. Sunnudagurinn hjá Nonna fór í að smíða nýjan flangs með minni rennslismótstöðu og með minni hættu á að loftpoki myndist sogmegin við dæluna og kláraði svo að tengja dæluna og prófa aftur en allt var við það sama þannig að það þarf að leggja höfuðið í bleyti og finna út úr því. Holla og Magga fóru á Laugarland á aðventuhátíðina sem er árlegt í sveitinni sölubásar með handverki, ekki er hægt að fara þar í gegn nema að fá sér heitt kakó og vöfflu hjá kvenfélaginu. Núna um helgina 8.- 9. desember var ákveðið að nota tímann og mála stofuna og stigaveggina heima í Hálsaselinu og setja nýjar gardínur í stofuna þannig að ákveðið var að fara ekki austur en Nonni skrapp reyndar á laugardaginn með húsgöng í bústaðinn og ákvað að reyna í leiðinni við heitavatnsdæluna og viti menn nú dælir hún eins og enginn sé morgundagurinn og ekki vottar fyrir neinum loftgangi. Það sem líklega var að stríða okkur var ventill sem leyfir dælunni að cirkulera vatni innan í sér, hann var ekki fullhertur og þá kemur það niður á soggetu dælunnar og þá getur hún kaviterað (sjóða) sem kallað er en þá losar dælan loft úr vatninu vegna undirþrýstings sem svo aftur veldur því að hún hættir að geta dælt. Nonni og Bragi prófuðu að dæla samfleytt í nokkra klukkutíma, fyrst 120 l/mín, svo 60 l/mín og loks 30-40 l/mín við 3 bar þrýsting án vandræða. Ekki var alveg að marka hitamælinguna því þeir dældu öllu vatninu aftur niður í holuna þannig að hún var að hringrása sama vatninu en hitastigið hélst samt 50°C. Það er líklegt að það hitni eitthvað þegar farið verður að dæla fyrir alvöru úr holunni og hún dregur nýtt vatn að sér. |
Mið-Setberg ræktunarbú > Dagbók >