10. apríl 2012

posted Apr 10, 2012, 2:42 PM by Jón Pétursson
Við fórum austur seint á miðvikudagskvöldið eftir að hafa fært willysinn heim úr Hafnarfirði og fyllt hestakerruna af verkfærum og vélum sem Nonni notaði við smíðina á honum og tekið með okkur austur.
Það var nóg að snúast í sveitinni að vanda og á fimmtudaginn byrjaði Holla á að rífa framöxulinn á John Deere traktornum til að skipta um hjöruliði út við hjól og Nonni og Bragi fóru í að fylla möl í hitaveituholuna til að slétta undir dæluhúsið.

 
Holla ekki vandræðum með að rífa dýrið

Bragi að fínslétta undir dæluhúsið

Sverrir og Villý voru fyrir austan með krakkana en þau komu fyrr í vikunni og voru búin að stinga út úr fjárhúsinu og koma taðinu á bretti til að þurrka það fyrir reykinguna. Sverrir fór svo ásamt Gumma að smíða hurðina fyrir hlöðuna.
Á föstudaginn fór Gummi og mokaði út úr neðra fjárhúsinu og Bragi sló saman móti fyrir plötuna undir hitaveituskúrinn. Nonni og Holla kláruðu að skipta um hjöruliðina í John Deere. 
Það voru vaktaskipti á Vindási á föstudaginn þegar Sverrir og Villý og börnin fóru í bæinn en Stína, Trausti og Aníta mættu á svæðið. Trausti kom inn í bústaðinn til okkar á föstudagskvöldinu með keðjusögina og felldum við slatta af trjám - það er ekki laust við smá sjokk á eftir - frúin kannski full grimm í grisjuninni þetta árið? 

 
Við felldum mest af alaskavíði þetta árið, þetta eru myndarbolir sem við erum að spá í að þurrka og kannski smíða eitthvað úr

Trausti snyrtir ofan af viðjunni við bílastæðið

Á laugardaginn klipptum við niður græðlinga úr trjánum sem við felldum og Holla fór í smá tiltekt í bústaðnum þar sem krakkarnir okkar voru á leiðinni austur og var búið að panta mat ala mamma.  Siggi á Botnum kom og fékk að hirða restina af viðjunni sem þau ætla að klippa niður í græðlinga.  Nonni fór á traktornum og sótti veghefilinn góða niður á Botna og renndi síðan með hann yfir Vindásafleggjarann alveg inní Laugar og upp að bústað.  Við grilluðum naut með öllu um kvöldið svo var bara kúrt yfir sjónvarpinu. 

Sunnudagurinn var tekin snemma þar sem ein lítil var orðin frekar spennt - nú átti að borða páskaegg og mikið af því. Rakel fór að veiða ásamt Guðrúnu og Árna og var einn vænn dregin á land, annars voru bara rólegheit nema við settum ámoksturstækin á massann og útbjuggum þyngdarklossa aftan á hann til að gera hann kláran fyrir steypuna daginn eftir. 

Á mánudaginn vöknuðum við snemma og fórum með allt liðið á Vindás og steyptum plötuna undir hitaveituskúrinn - vaskur mannskapur með góðar græjur var ekki lengi að því.
Hér eru nokkrar myndir úr steypunni

  

Krakkarnir fóru í bæinn um hádegi svo var bara að ganga frá pakka saman og koma sér af stað heim. Við komum við á Lækjarbotnum þar sem Nonni var búinn að lofa Guðlaugi að hjálpa honum að panta varahluti í Camaróinn fyrir Tóta. Við vorum svo heppin að vera óvænt boðið í kvöldmat góður endir á frábærri helgi. 

Comments