Helgina 3. - 5. júlí lögðum við dúk á herbergin og baðherbegið, kláruðum að setja upp vegghengt klósett og flísalögðum kassann.
Baðherbergið eftir endurbæturnar
Helgina 10. - 13. júlí komu Edda systurdóttir Nonna, Bob, Kirsti og foreldrar Bob´s í sveitina og voru fram á þriðjudag og þá komu Kevin frændi Hollu frá Connecticut, Sherry kona hans og dætur, Guðrún mamma Hollu, Helga systir hennar og hennar börn austur og voru hjá okkur fram á laugardag. Virkilega gaman að fá þau öll ekki síst Kevin og fjölskyldu en Holla hefur ekki hitt hann síðan hún var 12 ára þegar hún fór til Ameríku og heimsótti þá bræður Kevin, Will og Kæju mömmu þeirra sem var systir Helgu ömmu Hollu.
Kevin og fjölskylda, Holla í miðið svo Guðrún og Helga Birna Karen og Helgi Páll hægra megin
Við fórum með Þrumu í prufu til Danna Jóns á Hellu og tókum í framhaldi hana og Lúkas í bæinn á sunnudeginum. Þruma fór svo í sýningu á Hellu 22. júlí við fengum snillinginn Daníel Jónsson til að sýna hana en hún var í þjálfun hjá Þresti Gestssyni í vetur.
Við vorum í skýjunum með útkomuna 7,90 frábær dómur á klárhryssu en hún var með 7,98 fyrir sköpulag og 7,85 fyrir kosti og þar af 8,5 fyrir tölt, brokk, fegurð í reið, vilja og geðslag og hægt tölt, hún fékk svo 8,0 fyrir fet, stökk og hægt stökk en aðeins 5,0 fyrir skeið þar sem hún sýndi ekki skeið. Klárhross eiga erfitt með að ná fyrstu verðlaunum eða yfir 8,0 fyrir kosti vegna skeiðleysisins en klárhross sem fær 8,0 fyrir allar gangtegundir og 5,0 fyrir skeið fær aðeins 7,5 fyrir kosti þannig að 7,85 er frábært.
Þröstur með Þrumu rétt fyrir sýninguna
Þruma frá Mið-Setbergi í byggingardómi, Danni fylgist með en Maggi Ben stillti henni upp
Þruma og Danni Jóns í brautinni
Hér er svo video af sýningunni
Þruma frá Mið-Setbergi miðsumarssýning 2015
Helgina 24. - 26. júlí vorum við að dunda við að gera klárt fyrir verslunarmannahelgina, Nonni í heyskap á Vindási og Heysholti og Holla að taka til og prjóna.
Dýrið með rúlluvélina í Heysholti með Zetorinn okkar í forgrunni en ólag var á traktornum í Heysholti þannig að þau fengu Zetorinn til að redda sér.
Holla á John Deere og Nonni á Vindásmassanum sáu um að hirða rúllurnar í Heysholti
Verslunarmannahelgin var skemmtileg og að vanda kom fjölskyldan og hópur vina okkar af næstu bæjum í grill á laugardagskvöldinu, brennan var um kl 22 að vanda og sungið fram á nótt.
Maja og Palli í Skinnhúfu fremst á myndinni við brennuna sem að þessu sinni var að mestu úr grisjun í skóginum
Eiður og Þröstur 3000 sáu um undirspilið
Á mánudeginum komu í heimsókn Harpa Lind sem vinnur með Hollu ásamt Stefáni manni hennar og sonum, og voru með þeim belgísk hjón með tvö börn, þau eyddu með okkur seinnipartinum og fram á kvöld. Skoðuðum dýrin fóru í kartöflugarðinn og tóku upp nýjar kartöflur og svo borðuðum við saman góðan mat og enduðum á að fara með þau aðeins í ánna og veiddu þau einn sexpunda og annan þriggja punda.
Harpa Lind fjölskylda og belgarnir
Teknar upp kartöflur
Kíkt á fjárhúsrústirnar aftan við húsið hjá okkur
Við vorum við bæði í fríi vikuna eftir verslunarmannahelgi og þá var m.a. dundað við að gera klárt fyrir steypu og Nonni sótti möl í ánna.
Rósa og Oddgeir komu á föstudagskvöldinu og tjölduðu hjá okkur á flötinni og Guðrún Árni og Rakel komu á laugardags eftirmiðdag og voru þau fram á sunnudag. Laugardagurinn fór í klára að járnabinda og gera klárt, við sóttum líka Vídalín niður í Þykkvabæ með þeim Rósu og Oddgeiri, hann reyndist svo vera með bullandi hófsperru þannig að þau komu við í Helli og fengu Sigga til að klippa hann og svo var Guðmundur dýralæknir fenginn til að gefa honum kvalastillandi og bólgueyðandi lyf.
Á sunnudeginum var steypt og fengum við liðsauka úr sveitinni og þökkum við öllum kærlega fyrir aðstoðina.
Bragi keyrði steypuna inn í skemmu, Nonni var á gröfunni og mokaði mölinni í hrærivélina, Siggi og Holla blönduðu sementinu og vatninu og Rósa var inni í John Deere og sá um að losa hrærivélina.
Oggi sléttaði steypuna en Gulli og Árni tóku á móti
Alvöru lið og græjur í steypunni enda tók ekki nema einn og hálfan klukkutíma að hræra og leggja niður tæpa fimm rúmmetra.
Seinnipartinn fóru Holla og Rósa smá útreiðartúr og svo rifum við undan hrossunum þeirra.
posted Jun 30, 2015, 1:35 PM by Jón Pétursson
[
updated Jul 7, 2015, 8:43 AM
]
Holla er búin að vera í fríi síðustu viku og naut veðurblíðunar í sveitinni, Nonni kom svo austur á þriðjudagskvöld.
Sigga og Jan voru hjá okkur fram á mánudag og fóru þá í bæinn. Jan sem er að æfa sig að veiða á flugu prófaði nokkur köst í lóninu á Botnum á leiðinni til Reykjavíkur en bleikjan var ekki á því að láta fluguna trufla sig í sólbaðinu - gengur bara betur næst Jan.
Holla og Sigga taka í nikkurnar í blíðunni Jan til mikillar ánægju eins og sjá má
Nonni er búinn að slá flatirnar loksins komin einhver spretta, hann sló líka garðinn á Vindási og í Helli - ekki lengi gert með alvöru græjum.
Nýslegnar flatir í Mið-Setbergi - trén eru óðum að laufgast og allt orðið sumarlegt
Hann prófaði líka að flétta limgerðið við tjaldflötina eitthvað sem okkur hefur lengi langað að prófa og það kom bara ljómandi vel út.
Alaskavíðirinn í limgerðinu er upplagður í að flétta, langir og mjúkir sprotar
Við fengum Valla til að keyra möl í heimreiðina hjá okkur fyrir síðustu helgi til að hækka veginn aðeins og settum svo líka nokkra bíla við neðra hliðið og í áttina að Laugunum, Nonni sá svo um að jafna úr og slétta. Í vor gaf burðarlagið sig m.a. við hliðið og þar sem rafstrengurinn fer undir veginn að Laugunum sem vonandi verður í lagi eftir þessar vegabætur.
Heimreiðin eftir vegabæturnar
Rauða merin hans Gumma kastaði hestfolaldi á mánudaginn, það er rautt með blesu undan Gjafari
Folaldið dagsgamalt og pabbinn Gjafar í baksýn
Gæsin hópast nú af ánni með ungana inn á túnin á Vindási og gæðir sér á grasinu, hún gerist stöðugt frakkari og er nú í hópum inni á fjárhústúninu eftir að við hættum að bera á næst ánni. Annars hefur sprettan verið sáralítil til þessa.
Gæsamömmur og pabbar með ungana
Holla og Sigga fóru á miðvikudaginn í heimsókn til Bjargar frænku þeirra beggja og Bjössa í Efsta-Dal II, ætlunin var að spila saman á nikkur en meira var masað og svo var smakkað á ís og skyri sem þau framleiða.
Fimmtudaginn 25. júní var algjör blíða í sveitinni og ákváðum við að njóta hennar og gera ekki neitt ef þetta yrði nú eini almennilegi sólardagurinn í sumar.
Ekki amalegt að liggja í sólbaði, fara í pottinn og njóta blíðra harmonikkutóna í leiðinni
Laugardaginn 27. júní fórum við í bíltúr með Möggu og Braga á Vindási upp í Grímsnes og kíktum á frændfólk Möggu í svínabúinu á Ormsstöðum sem selur svínakjöt beint frá býli og gróðrarstöðina í Ártanga. Skemmst er frá að segja að við nældum okkur í nokkrar svínasteikur á Ormsstöðum og helling af kryddjurtum frá Ártanga.
Gróðrarstöðin í Ártanga
Við fórum svo lengri leiðina heim komum við í Reykholti og fórum í gegnum Flúðir niður Skeiðin og kíktum í kaffi til Gunna og Kollu í Votamýri 2.
Nonni kom með nýja hitaveitudælu fyrir Vindás þegar hann kom austur og fór á sunnudaginn í að koma henni fyrir og forrita hraðastýringuna fyrir hana. Nocchi dælan frá Dynjanda sem hann setti upp í desember 2012 var farin að leka út með dæluöxlinum sem er ótrúlega léleg ending en reyndar stóð alltaf til að kaupa varadælu þannig að það var drifið í því núna og í þetta sinnið var keypt Gundfos dæla frá Ísleifi Jónssyni svo að Nocchi dælan verður löguð og höfð til vara.
Holla og Magga fóru í að búa til kjötfars og bjúgu úr kindahakkinu sem útbúið var í haust. Bragi sá um að reykja bjúgun og herlegheitin voru svo smökkuð á laugardags- og sunnudagskvöldinu og smökkuðust svona líka glimmrandi.
posted Jun 26, 2015, 6:57 PM by Jón Pétursson
[
updated Jun 28, 2015, 4:34 AM
]
Nú er orðið langt síðan síðast var fært í dagbókina en hér er aðeins reynt að bæta úr því.
17-21. júní
Við fórum austur þann 17. og Rakel kom með okkur, hún fór með okkur á 17. júní hátíðarhöldin á Brúarlundi og á leikjanámskeið á Laugarlandi fimmtudag og föstudag. Um kvöldið komu Árni og Guðrún borðuðu og fóru svo með öll í bæinn.
Við sóttum gráu kanínuna hennar Hollu sem hefur verið niðri á Botnum og líka hinar tvær sem voru á Vindási og komum þeim fyrir í búrum á flötinni við bústaðinn þar sem þær verða í sumar.
Hér eru hvíta og svarta kanínan sem voru á Vindási komnar út í góða veðrið, sú svarta sá sér leik á borði og tróð sér út í gegnum netið sjá neðst til hægri á myndinni og naut frelsisins um stund í skóginum hjá okkur en hljóp svo aftur inn í búrið þegar við ætluðum að ná henni - fyndið...
Sigga og Jan komu, eftir að hafa farið hringinn í kringum um landið, í bústaðinn seinni part á laugardeginum þann 20. júní.
Magnús og Morag vinir okkar frá eynni Skye sem er rétt hjá þar sem Sigga og Jan búa í Skotlandi komu líka á laugardeginum og fórum við með þau í bíltúr til að hitta félagana sem heimsóttu Magnús síðasta haust til Skotlands.
Fyrst fórum við á Lækjarbotna þar sem Gulli sýndi þeim fiskeldið, skógerðina og búskapinn.
Hér kíkja þau á vatnshrútinn sem dældi vatni heim á Lækjarbotna
Næst var farið í Hrólfsstaðahelli og Eiður og Anna sýndu þeim m.a. kjötvinnsluna, hellinn og gamla bæinn.
Að lokum fórum við í Gesthús á Selfossi sem Óli og Lísa eiga og reka og kíktum á starfsemina hjá þeim og renndum svo hring á Landsmóti Fornbílaklúbbsins sem stóð yfir í Gesthúsum þessa helgi.
Svo var haldið í bústaðinn þar sem Sigga og Jan biðu og eldaður góður matur í bústaðnum og spjallað fram á kvöld, Magnús og Morat héld svo til Skotlands daginn eftir en Sigga og Jan verða viku lengur.
17. júní. þjóðhátíðardagskráin á Brúarlundi var með hefðbundnu sniði byrjað á hópreið, svo flutti séra Halldóra hátíðarávarp og þá var keppt á hestum.
Næst voru leikir fyrir yngri kynslóðina og loks kaffi í Brúarlundi.
Þetta árið var verður leiðinlegt um morguninn og rigningarspá þannig að mæting var minni en oft áður.
Hópreiðin í byrjun hátíðarhaldanna var fámennari en oft áður
Fyrr um daginn komu Rósa og Oddgeir vinir Hollu með þrjá hesta sem verða á Vindási í hagabeit í sumar.
Gummi ákvað að setja hrossin í sveltihólfið við Laugar til að byrja með
Helgin 12. - 14. júní fór að mestu í hrossastúss. Við komum austur með Abel, Lúkas og Þrumu og byrjuðum á að setja þau í hestastykkið á Vindási en færðum Þrumu svo inn í hesthús en slepptum Abel og Lúkasi út í haga.
Við kláruðum að setja rafmagsgirðinguna utan við hestastykkið og lokkuðum hrossin úr haganum inn í gerði og tókum merarnar frá sem áttu að fara í girðinguna til Gjafars og slepptum þeim svo í hestastykkið. Gjafar verður með sex merar þetta árið.
Næst fórum við og sóttum Gjafar og slepptum honum í merarnar og ekki var leiðinlegt að fylgjast með þeim kljást.
Hér eru nokkara myndir frá því að Gjafari var sleppt í hólfið
Við fórum svo með Þrumu í járningu til Hjartar en frekar að láta hana kúldrast á kerrunni eftir að við sóttum hana þar til við færum í bæinn á sunnudagskvöldinu ákváðum við að gera vel við hana og leyfa henni að bíta inni við bústað en hún launaði það með því að setja sig á rafmagnsgirðinguna og rauk svo út í haga. Upphófst þá heljarinnar eltingaleikur enda á milli í haganum við að reyna að ná henni aftur sem hafðist á lokum með hjálp skrjáfs í plastpoka en ekki var laust við að svitinn bogaði af bæði mönnum og hestum áður en yfir lauk. Þruma var einmitt í látum þannig að það var mikill pirringur í henni en þessi hegðun mjög ólík henni sem er með gæfustu hestunum okkar.
Holla leyfði Þrumu að gæða sér á grasinu inni við bústað.
Vindásbændur fengu stóra dýrið lánað til að keyra tað út í langa stykkið sem þeir höfðu plægt á honum um síðustu helgi, hann var ekki í vandræðum með dreifarann þó hann væri bæði stór og þungur.
John Deere með taðdreifarann frá búnaðarfélaginu
11. júní renndi Nonni austur á Hellu til að sjá hann Gjafar okkar í byggingardómi og það gekk nú heldur betur vel, hann fékk 8,18 fyrir byggingu og erum við þar með orðin ræktendur og eigendur að 1. verðlauna stóðhesti (fyrir sköpulag) - ekki amalegt það! Heiðurinn af sýningunni eiga að sjálfsögðu hjónin Hjörtur og Elín og Gjafar var glæsilega til hafður og vel haldinn.
Gjafar frá Mið-Setbergi 4 vetra með sýnendum sínum þeim Hirti og Elínu
Nú er það ákveðið að haldið verður áfram með hann í fullnaðardóm og fer hann í áframhaldandi þjálfun í haust.
Hér er dómurinn og umsögnin, ath ekki var gefið hærra en 7,5 fyrir réttleika vegna þess að hann brokkaði ekki þegar hann var teymdur fyrir dómarana (gefnar eru athugasemdir við suma liðina og þá eru kostir með tölustaf fyrir framan en gallar eru með bókstaf):
Helgina 5. - 7. júni fórum við í að girða rafmagnsgirðingu utan við hestastykkið til að hrossin í haganum og í hestastykkinu næðu ekki að stinga saman nefjum yfir girðinguna því til stendur að hafa Gjafar þar í sumar með merum.
Holla naut aðstoðar Freyju labbatíkur sem við erum með í pössun og Bletta kom líka með lömbin sín og hjálpaði eða kannski vildi hún bara nammi...
Hellishjúin og Reynir sonur þeirra komu svo um kvöldið og fengu tvær sneisafullar kerrur af trjám úr vermireitunum hjá okkur en við höfum ekkert pláss lengur til að planta út í. Mest var það alaskavíðir sem var orðinn ansi vaxinn, viðja og nokkur myndarleg grenitré líka.
Smá pása í að stinga upp trén
Við sóttum svo þá Óðinn og Þór niður í Hrólfsstaðahelli en Holla fór með þá þangað fyrr í vikunni í geldingu.
Óðinn er undan Von frá Mið-Setbergi sem er undan Kerru frá Álfhólum og Ægi frá Litlalandi en Þór er undan Spóadóttur og við keyptum hann frá Hjallanesi - þeir eru báðir undan Gjafari okkar.
Þór fór í leikskóla til Magga Lár í Holtsmúla og fékk fína umsögn, byggingarlega skoraði hann 43 af 50 og skapgerðarlega var hann á hárréttum stað passlega ör og kjarkaður - kjörgangur tölt og brokk.
Við höfum aðeins átt sjálf við Óðinn og erum mjög ánægð með hann, lundin er frábær og allur gangur laus.
Það var frekar lágt risið á félögunum eftir geldinguna, Þór er sá jarpskjótti og Óðinn sjá rauði með blesu
Við kíktum í leiðinni í Helli á húsið hjá Sigga og Sunnevu og það er að verða glæsilegt. Nonni teiknaði húsið og er bygginarstjóri lika þannig að hann má ekki slá slöku við í eftirlitinu.
Hús Sigga og Sunnevu í hrauninu vestan við Hrólfsstaðahelli
Helgin 29. - 31. maí.
Á laugardaginn fórum við í jarðarför Geira á Minni-Völlum í Skarðskirkju og síðan í erfidrykkjuna í Brúarlundi. Geiri varð 97 ára síðastur systkinanna fá Minni-Völlum og bjó síðustu árin á Lundi á Hellu. Skemmitlegt frá að segja að Nonni er nú að gera upp Land Rover L-495 sem Geiri keypti nýjan að Minni-Völlum árið 1967 og seldi hann 1992 - það verður ekki leiðinlegt að mæta á honum í sveitina þegar hann verður tilbúinn.
Við tókum eftir að Púmba hennar Stínu hafði tekið sig frá hrossunum þegar við fórum í jarðarförina þannig að við kíktum á hana í bakaleiðinni og þá var hún nýköstuð brúnu hestfolaldi sem er undan Gjafari.
Púmba og Simbi litli
Púmba og Simbi
Holla alltaf söm við sig má ekkert aumt sjá án þess að hjálpa því
Við settum niður salat og matjurtir í litla potta og ætlum svo að sá meiru eftir svona tvær til þrjár vikur til að uppskeran verði ekki öll á sama tíma.
Holla að klára að merkja pottana
Helgarnar í maí fóru allar meira og minna í sauðburð. Holla var í fæðingarorlofi í tvær vikur og Nonni var einskonar helgarpabbi og renndi austur þegar tækifæri gafst og alltaf um helgar. Sauðburðurinn gekk vel í ár og lítið um afföll.
Við fengum heimsóknir frá ættingjum og vinum sem komu til að kíkja á litlu lömbin. Holla er svo með fullt af sauðburðarmyndum á Facebook síðu sinni ef menn vilja skoða.
Hér er eitt voðalítið og sætt lamb
Rakel og Þóra voru duglegar að hjálpa við sauðburðinn
Þór pabbi Hollu og Anna komu með Birnu Karen og Ólöfu með sér og þeim þótti ekki leiðilegt að kíkja á angúrukanínurnar hennar Hollu.
Svi komu líka Arnaldur sonur Önnu og Gyða með stelpurnar og Sigga vinkona Hollu og Hannes komu líka strákana sína.
Nonni er búinn að vera að taka Zetorinn í gegn í vetur og skipti m.a. um reimtrissu á mótornum sem reyndist hafa verið af vitlausri gerð sem olli því að afstaðan á viftureimin var skökk og hann kældi sig ekki sem skildi.
Hann er svo búinn að taka húddið í bæinn og er að sandblása og vinna það undir sprautun, hann ætlar svo að ryðbæta brettin og gólfið fyrir austan og mála þar.
Hér er búið að rífa allt framan af Zetor en frambitinn reyndar kominn undir aftur eftir trissuskiptin
Helgina 1. - 3. maí undirbjuggum við fjárhúsið niðri við Þjórsá fyrir sauðburð, við settum upp ellefu stíur og settum þakplötu yfir stórt gat sem var á þakinu og gerðum líka við járnið á suðurveggnum.
Stíurnar klárar
18. og 22. apríl
Holla og Þruma kepptu í kvennatöltinu í Spretti þann 18. apríl og gekk bara bærilega hjá þeim stöllum lentu í 16-18 sæti af 36 keppendum - bara frábær árangur en þetta var fyrsta keppnin þeirra.
Þruma og Holla í sínu fínasta pússi áður en þær halda inn á völlinn
Þær kepptu svo aftur þann 22. apríl á síðustu vetrarleikunum í Spretti og náðu þá silfrinu og brekkudómaranir voru á því að þær hefðu átt að vinna!
Holla og Þruma í öðru sæti á vetrarleikum Spretts
Sveifla á Hollu og Þrumu á vetrarleikum
2-6 apríl. Páskarnir voru ljúfir mikið kúrt og prjónað. Það var sama ófærðin og allar hinar helgarnar í vetur.
Nonni mokar heimreiðina enn eina helgina
Nonni fór að mixa taðgreip sem hann keypti á prúttmarkaði hjá Vélaborg á litla dýrið. Hún reyndist svo frábærlega til útmoksturs úr fjárhúsunum þar sem stóra vélin komst ekki að.
Litli John Deere kominn með taðgreipina á
Við fengum Eið til að klippa hófana á Pumbu en hún var orðin frekar vaxin, hún fékk einmitt hófsperru síðasta sumar þannig að reynt hafði verið að klippa til hófana til að laga það.
Við kíktum í Hrólfstaðahelli á nýja húsið sem Siggi og Sunneva eru að reisa.
Nýja hús Sigga og Sunnevu í Helli
Fanney, Árni og Rakel komu í mat á sunnudeginum ekki leiðinlegt að fá þau í heimsókn. Árni og Rakel kíktu aðeins í ána og fékk sú stutta einn 7 punda urriða algjör aflakló.
Rakel með flottan urriða úr ánni
Helgina 28. - 29. mars fórum við austur á föstudeginum Holla fór í spuna á laugardeginum en Nonni var í skemmunni m.a. að dunda við fjórhjólið við fórum í bæinn seinnipartinn á laugardeginum þar sem Magnús systursonur Hollu var að fermast á sunnudeginum og hjálpaði Holla aðeins til með veitingar og skreytingar. Til hamingju með daginn Magnús Ari.
Helgina 21. - 22. mars fórum austur á laugardeginum helgin tekin rólega.
Kanínurnar fengu að fara í sveitina en þær eru búnar að vera í bílskúrnum frá í desember en var full heitt á þeim þar, ullin ekki að vaxa sem skildi. Við kíktum á Lækjarbotna í smá kaffisopa og spjall annars bara rólegheit.
Helgina 14. - 15. mars Holla fór í spuna á sunnudeginum þar sem það var súpufundur á Brúarlundi á laugardagsmorgun við misstum af honum þar sem við fórum ekki úr bænum f.e. eftir hádegi á laugardeginum. Hellisheiðin lokuð og veðrið já eins og það er búið að vera í vetur hundleiðinlegt. Holla bakaði með Möggu fleiri flatkökur og annan skammt af kleinum, en Guðrún er að fara í æfingaferð til Spánar svo að þetta var einskonar fjáröflunarleið fyrir stelpuna.
Helgina 7. - 8. mars var Holla á spunanámskeiði í Skinnhúfu en Maja hafði fengið eina frægustu spunakonu heims frá USA til að koma og kenna eina helgi.
Þetta var mjög fróðlegt og skemmtilegt námskeið og komu konur frá öllum landshlutum þrátt fyrir hundleiðinlegt veður.
Það er ansi vetrarlegt í sveitinni
Námskeiðið var vel sótt
Smá sýnishorn af því sem var spunnið
Helgina 28. febrúar – 1. mars Holla fór í spuna á Brúarlundi og Nonni dundaði í skemmunni. Þetta er búinn að vera ótrúlegur vetur mokstur allar helgar inn í bústað og ekkert lát á veðri.
Holla bakaði með Möggu flatkökur og kleinur á sunnudeginum og Nonni hélt áfram með fjórhjólið í skemmunni.
Fórum líka í Hjallanes að kíkja á tæplega veturgamla trippið sem Holla var að kaupa af þeim, ákveðið er að hann fái nafnið Þór og er frá Hjallanesi.
Þór er undan Gjafari frá Mið-Setbergi og Spóadóttur og ekki orðinn veturgamall
posted Feb 22, 2015, 7:59 AM by Jón Pétursson
[
updated Feb 22, 2015, 8:04 AM
]
Helgin 6-8 febrúar var lítið um að vera, Holla fékk lánaða kembivélina hjá Jónínu á Botnum og kembdi svarta ull í gríð og erg. Nonni dundaði aðeins við tiltekt í skemmunni en annars var bara slappað af.
Helgina 13-15 febrúar var nóg að gera, Nonni fór í skemmunna og byrjað að rífa mótorinnn í fjórhjólinu í sundur en hann bræddi úr stangarlegu og þarf að skipta um sveifarásinn, Nonni hefur verið að viða að sér varahlutum í rólegheitum og er nú er komið að því að setja saman.
Glöggir taka ábyggilega eftir því hvað efsti hluti stimpilstangarinnar fyrir miðri mynd efst er dökkur en hún hefur ofhitnað þegar legan í stimpilboltanum bræddi úr sér
Holla fór í spuna á laugardeginum og bakaði svo flatkökur og kleinur með Möggu á Vindási á sunnudeginum.
Við stefndum á að kíkja á hvernig gengi með taminguna á Gjafari en það rigndi eldi og brennisteini á laugardeginum og allt í dullu á sunnudeginum þannig að við frestuðum því fram á næstu helgi.
Helgina 20-21 febrúar fórum við austur á föstudagskvöldinu komum við í smá kaffisopa á Lækjarbotnum og fórum svo með nýja hraðastýringu fyrir hitaveitudæluna á Vindás, tölvan í henni klikkaði þegar rafmagnið fór í vetur og var hún send út til framleiðandans og nú er ný komin í staðinn.
Við kíktum á Gjafar á laugardagsmorgninum en hann er nú búinn að vera rúman mánuð hjá Hirti.
Hjörtur leggur á Gjafar
Veðrið var ekki spennandi fyrir sýningu -10°C og rok en Gjafar var samt ótrúlega stapíll og þjáll og verður ábyggilega mikill gæðingur.
Lundin er sem áður frábær og hann gerir allt sem hann er beðinn um og er nú farinn að brokka ef hann er beðinn um það og leitar frekar í brokkið en ekki lengur í stökk ef hann er krafinn um of sem þýðir væntanlega að hann er að styrkjast og þjálfast á gangi.
Hann er líka að sækja í sig vilja en brokkinu fylgir smá bindingur á tölti en ekkert til vandræða.
Gjafar frá Mið-Setbergi 21. febrúar 2015
Við sóttum gráu kindurnar tvær sem við vorum með undir gráum feldblönduðum hrúti í Hrólfsstaðahelli - það verður spennandi að sjá hvað kemur undan þeim í vor.
Veðurstöðin hefur verið að stríða okkur í langan tíma en hún frýs annað slagið og hættir að senda upplýsingar út á netið eins og einhverjir hafa sjálfsagt tekið eftir, það stendur nú vonandi til bóta Nonni er búinn að panta nýjan loggara í hana.
Við fórum í bæinn seinnipart laugardags þar sem spáin fyrir kvöldið og sunnudaginn var afleit og engu ferðaveðri spáð.
Helgin 16 - 18. janúar var strembin bæði líkamlega og andlega.
Við byrjuðum á Vindási á að úrbeina, hluta og pakka einu nauti á föstudagskvöldinu.
Holla ber sig faglega að við úrbeininguna
Síðan var haldið í bústaðinn og eins og venjulega þurfti að moka okkur þangað en Nonni affelgaði annað framdekkið á Dýrinu svo við urðum að klöngraðst skaflana upp að húsinu. Morgunin eftir kom í ljós að ástæðan fyrir affelguninni var að ventill í framfelgunni var af vitlausri gerð og eitthvað hafði rekist í hann og lekið með honum - við tókum dekkið með okkur í bæinn til að fá nýjan ventil.
Hér er smá video af mokstrinum sem var hellingsmál þar sem snjórinn var vel pakkaður.
Snjómokstur á John Deere
Á laugardeginum fór Holla í spuna á Brúarlund en Nonni fór á gröfunni og tók gröf fyrir Eldingu á meðan, við felldum hana svo seinnipartinn.
Hún var búin að vera með hita í viku og ekkert að lagast erum ekki viss hvað var að henni ofan í hófsperruna. Mikil sorg að missa hana en við erum búin að eiga hana frá því hún var folald, hún var hálfsystir Þrumu okkar.
Nonni búinn að taka gröf fyrir Eldingu
Á sunnudeginum fórum við frekar snemma í bæinn með Þrumu í kerru en hún verður til að byrja með í smá tamningu hjá Þresti vini okkar í Spretti - allavega þar til Holla tekur á hús.
Við festum kaup á 19 vetra gæðingi fyrir Rakel í vikunni sem hún ætlar að nota á námskeið í vetur en hann er alþægur, brúnn, lítill og sætur sem á að vera öllu vanur og heitir Styrkár frá Álfhólahjáleigu.
Rakel og Styrkár frá Álfhólahjáleigu
Helgin 23 - 25. janúar fórum við austur að vanda
Við komum með dekkið á traktorinn settum það undir og Nonni kláraði að moka í gegnum skaflinn inn að bústað
Snjógöngin inn að bústað ná upp á miðja rúðu á Fordinum
Á laugardaginn fengum við lánaða kerru á Vindási og fórum á Hárlaugsstaði og sóttum kindurnar tvær sem voru þar hjá mórauða hrútnum hans Palla í Fossi.
Um kvöldið var svo árlegt þorrablót Landsveitarinnar í Brúarlundi og létum við okkur ekki vanta frekar en áður, þar var fullt hús eins og vanalega góður matur og frábær heimatilbúin skemmtiatriði - að þessu sinni var það neðri sveitin sem var í skemmtinefnd.
Hér tekur Beggi sjónvarpsstjörnuna Palla á Galtalæk listavel
Helgin 30. janúar til 1. febrúar
Jæja fyrsta helgin í langan tíma sem við komumst inn í bústað án þess að moka - bara einn skafl sem Fordinn rann létt í gegnum.
Holla fór í spuna á Brúarlund á laugardag og Nonni snýkti sér kaffi á Lækjarbotnum á meðan og fór svo með Vindásbændum í að setja fullorðinsmerki í gemsana og smálömbin.
Verið að setja fullorðinsmerkin í gemsa
Veðrið var einstaklega fallegt á laugardeginum bjart og 14°C frost.
Fjallahringurinn er flottur séður frá Vindási - gosmengunin sést yfir fjöllunum sem gul slikja ef grant er skoðað
Við kíktum á hrossin og þau hafast vel við
Óðinn og Von - ekki langt í að Óðinn verði jafn stór mömmu sinni
Kíktum á nýju innréttingarnar í hesthúsinu á Botnum sem koma heldur betur vel út - engin smá breyting! Eftir breytingu verður pláss fyrir 10 hross í einshesta stíum.
Gulli og Tóta við nýju innréttingarnar
Tókum því svo létt eftir það og á sunnudeginum byrjaði enn að snjóa og voru komnir amk 10cm jafnfallnir þegar við fórum í bæinn.
Við fórum af stað í bæinn seinnipartinn og komum við á Lækjarbotnum og sóttum eina kanínu sem fékk að fljóta með í bæinn.
posted Jan 11, 2015, 11:30 AM by Jón Pétursson
[
updated Jan 11, 2015, 11:31 AM
]
Við fórum austur á föstudagkvöldið og komum fyrst við á Lækjarbotnum með eina kanínuna hennar Hollu, hún hafði verið illa bitin af hinum tveimur þannig að sambúðin er ekki alveg að ganga.
Á laugardeginum fórum við yfir á Vindás með hestakerruna til að sækja Eldingu út í haga en hún var draghölt og lá frekar en að standa.
Niðri við hlið hafði Svenni í Flagbjarnarholti misst traktorinn út af háum vegkanti og var hann við það að velta. Nonni sem var á traktornum var ekki í vandræðum með að kippa honum upp á veginn.
Massinn hjá Svenna kominn upp á veg
Hlaðist hafði í hófa á Eldingu þannig að hún stóð nánast á stultum en svo verður að koma í ljós hvort hófsperran sem hún fékk í vor er að há henni eða hvort hún jafnar sig, við komum henni fyrir inni í hesthúsi á Vindási og gáfum henni verkjalyf.
Það er frekar köld vistin hjá hrossunum núna en þau virðast vel haldin og ekki hnjúskuð
Við fórum svo með kerruna niður á Lækjabotna og fengum Gulla og Nínu með okkur út í graðhestagirðinguna við Þúfu sóttum Gjafar og fórum svo með hann í áframhaldandi tamningu til Hjartar í Flagveltu.
Ekki náiðist að koma múl á Gjafar í haganum og frekar en að láta hann komast upp með að slíta sig lausan rákum við graðfolana inn í aðhaldið vestan í stykkinu, þar gekk eins og í sögu að koma á hann múl og svo teymdum við hann til baka.
Gjafar og félagar skokka létt inn í aðhaldið í graðhestagirðingunni.
Á sunnudeginum var slappað af fram yfir hádegi, Nonni vann í tölvunni en Holla púslaði.
Síðan var pakkað saman og lagt af stað í bæinn og eins og áður var allt á kafi í snjó - eins gott að traktorinn var inni í bústað útilokað að við hefðum komist hjálparlaust út á veg.
Núna var það mikill snjór að ekki hafðist að ryðjast í gegnum hann heldur var Nonni dágóða stund að moka snjónum til hliðar
Við komum við á Vindási og kíktum á Eldingu, hún var lítið skárri að sjá en tíminn leiðir í ljós hvort hún jafnar sig.
posted Jan 8, 2015, 2:52 PM by Jón Pétursson
[
updated Jan 9, 2015, 5:13 PM
]
Helgin 2-4. janúar
Sigga og Jan komu með okkur austur þessa helgi, við vorum heppin að það voru norðurljós á leiðinni austur þannig að Jan fékk smá forsmekk af þeim.
Holla og Sigga fóru í spuna á Brúarlundi á laugardagsmorgun en Jan tók myndir og Nonni mokaði m.a. snjó af veginum á meðan.
Veðrið var með eindæmum um helgina, það hafði snjóað í login og ekki hreyfði vind fram á sunnudag þannig að öll trén voru þakin snjó. Því miður voru engin norðurljós laugardag og sunnudag fúlt fyrir Jan sem var spenntur að ná þeim á mynd á nýju myndavélina.
Greinarnar kikna undan snjónum og stóri John Deere hvílir sig fram að næsta snjómokstri
Á laugardagskvöldið komu Skotlandsfararnir Lísa, Óli, Gulli, Nína, Anna og Eiður til okkar í mat, við skoðuðum myndir frá ferðinni og spjölluðum - virkilega skemmtilegt kvöld.
Hópurinn kátur að sjá yfir villibráðarhlaðborðinu
Óðinn stækkar og dafnar ört og er gæfur og hændur að manni
Óðinn undan Von og Gjafari öll frá Mið-Setbergi
Við fórum snemma í bæinn á sunnudeginum þar sem Sigga og Jan voru að fara í annað boð eftir hádegið - þétt skipuð dagskrá hjá þeim.
Kisurnar hertóku jólatréð yfir hátíðina og ekki útlit fyrir að það fari upp aftur eftir þessa meðferð og Grettir var líka duglegur að hjálpa Hollu að púsla
Kisurnar slappa af í trénu, ekki margar kúlur eða annað skraut eftir
Myndirnar af kisunum tók Jan og hér fyrir neðan eru nokkrar flottar sem hann tók í bústaðnum um helgina
Kæru vinir og vandamenn nær og fjær, gleðileg jól og farsælt komandi ár!
Mið-Setberg í vetrarbúningi
Nokkuð hefur vantað upp á dagbókarfærslurnar að undanförnu en hér verður gerð tilraun til að bæta úr því.
Helgin 15-16 nóvember.
Við fórum við í bíltúr á Selfoss á laugardeginum, Hollu vantaði smávegis dót í Þingborg og á bakaleiðinni kíktum við í kaffi á Skinnhúfu til Maju og Palla.
Nonni varð heillaður af skemmunni þeirra og alltaf draumurinn að koma svona upp hjá okkur.
Við kíktum svo við á Lækjarbotnum en þau voru að steypa í flórana í gamla fjósgólfinu en fjósið á að nota sem aðstöðu fyrir ýmis konar föndur og viðgerðir.
Steypan hrærð upp á gamla mátann
Helgin 21. - 23. nóvember.
Við fórum í að saga og pakka kjötinu, úrbeinuðum rollur sem eiga að fara í kjötfars og bjúgu og Holla og Magga bökuðu flatkökur.
Lúlli og Linda voru erlendis þessa helgi og fékk Freyja litla að koma með okkur í sveitina, henni fannst ekkert leiðinlegt að skottast með okkur í fjárhúsið og beið stillt meðan við flokkuðum féð fyrir tilhleypingar.
Holla og Freyja
Helgin 28. - 30. nóvember.
Holla eyddi laugardeginum í að undirbúa aðventuhátíðina á Laugalandi þar sem spunakonurnar voru með bás, hún kláraði að spinna og koma bandi í söluumbúðir.
Nonni er að undirbúa að steypa restina af gólfinu í skemmunni, hann skóf fyrst gróflega ofan af gólfinu með gröfunni og fínsléttaði svo með massanum.
Á sunnudeginum var svo aðventuhátíðin sem var heldur verr sótt og oft áður sennilega vegna þess hve veðrið var leiðinlegt - ekki gaf einu sinni veður til að hægt væri að kveikja á jólatrénu.
Básinn hjá spunakonunum
Helgin 5. - 8. desember
Mikið er búið að spinna á Brúarlundi og var Holla svo heppin að fá tvö reifi af feldfé til að spreyta sig á. Það er nokkuð ljóst að ull er ekki bara ull - þetta er eins og allt annað efni. Eitthvað hefur verið dundað í tiltekt í bústaðnum og sett upp smá jólaskraut.
Nonni er m.a. búinn að smyrja og gera vélarnar klárar fyrir veturinn og ganga frá í skemmunni en útlit er fyrir að ekki náist að steypa gólfið fyrr en frostinu linnir en annars hefur hann verið að vinna í pappírsvinnu í bústaðnum flestar helgar.
Helgin 12-14. desember.
Það var allt á kafi í snjó og við þurftum að moka okkur í og úr bústaðnum eins og reyndar flestar helgar í desember.
Það safnast alltaf snjór í lægðina fyrir innan hliðið
Við fórum með tvær kindur til Sillu og Guðmundar Hárlaugsstöðum aðra mórauða og hina móbotnótta undir mórauðan hrút frá Palla á Fossi.
Hrúturinn var voða skotinn í móbotnóttu gimbrinni sem ekki var alveg tilkippileg,
Svo fórum við með og tvær gráar undir gráan hrút sem er hálfur feldhrútur til Önnu og Eiðs í Hrólfstaðahelli. Önnur þeirra er Inda sem við fengum hjá Indriða á Skjaldfönn.
Við rákum hrossin úr suðurhaganum yfir í norðurhagann og inn í fjárhús og svo kom dýralæknir á þriðjudeginum og gaf þeim lúsa- og ormasprautu Holla hefur verið að dunda við að flétta ennisólar, tauma og ólar á múla.
Við fengum lánaðar fyrirsætur hjá Gunna og Kollu þar sem við erum ekki komin með hross á hús
Helgina fyrir jól skruppum við í bíltúr með pakka á sveitungana og sóttum hangikjöt sem Eiður reykti fyrir okkur.
Milli jóla og nýárs fórum við í smá bíltúr aðeins að fá sveitaloft í lungun og hvíla okkur eftir átið og eldamennskuna.
posted Nov 6, 2014, 3:46 PM by Jón Pétursson
[
updated Nov 7, 2014, 3:27 AM
]
Mikið hefur verið kvartað yfir því að lítið hefur verið fært í dagbókina að undanförnu - ekkert að gerast í sveitinni eða hvað? Jæja hér verður reynt að bæta aðeins úr en við höfum alls ekki setið auðum höndum...
Þann 26. sept voru Landréttir í Áfangagili og létum við okkur ekki vanta og var Holla mest allan tímann í sölutjaldinu eins og góðri kvennfélagskonu sæmir en Nonni dró fé með bændum sveitarinnar. Veðrið var ágætt til að byrja með en svo gekk á með skúrum.
Mikið var um fólk í réttunum að vanda og hellingur af fé líka.
Um mánaðarmótin sept-okt sóttum við Gjafar úr tamningu til Hjartar hann kemur virkilega vel út alþægur, óhræddur við allt með allan gang. Hjörtur reið honum eftir mánuðinn eins og fulltömdum hesti. Hann er nú kominn í frí fram að áramótum og verður gaman sjá hvernig hann þróast við áframhaldandi tamningu.
Gjafar þriggja vetra og Hjörtur - flottir saman
Gjafar frá Mið-Setbergi
Helgina 3-5. október smöluðum við hagana á Vindási ásamt liðinu þar. Síðan var farið í gegnum hópinn lesið á merki sláturlömb og lífgimbrar valdar
Holla sá um að skrá allt niður, Gummi las á merkin og Magga og Bragi ráku inn og Nonni var á hliðinu í flokkaranum að vanda.
Gráni okkar er flottur hrútur og þvílíkt gæðablóð og öðlingur, honum þótti þægilegast að liggja hjá okkur við hliðina á rennunni þar sem Myrka hélt honum selskap
Á sunnudeginum var haldin hin árlega fjárlitasýning fjárræktarfélagsins Lits í Árbæjarhjáleigu - glæsileg sýning að vanda jafnvel þó við kæmum ekki með neitt til að sýna...
Kristinn var kynnir að vanda og gripirnir hverjum öðrum glæsilegri
Á mánudeginum 6. okt var svo fyrsti hópurinn sendur í sláturhús og var útkoman sæmileg.
Þann 12. október skelltum við okkur til Skotlands ásamt Jónínu, Guðlaugi, Önnu, Eið, Lísu og Óla og vorum þar í viku. Sigga systir Nonna og Jan maðurinn hennar tóku á móti okkur þegar við lentum í Edinborg. Við vorum svo í Edinborg í tvo daga, keyrðum í suður og heimsóttum m.a. spuna og ullarnetverslun, gróðurhús sem sérhæfir sig í kryddjurtum og jurtum til tegerðar og eru með býflugur. Við heimsóttum líka súkkulaðigerðina hjá Eddu og Kirsty og fengum að smakka dýrindis súkkulaði sem þær búa til.
Einn dag var frí frá skoðunarferðum og eyddum við honum í verslunum á Princesstreet og svo elduðu Sigga og Jan hefðbundna skoska rétti um kvöldið og eftir það fórum út á pöbb og hlustuðum á Lindu vinkonu Siggu spila skoska tónlist á harmonikku.
Haggis og steak pie í boði Siggu og Jan
Dagur í búðum í Edinborg...
Svo var lagt af stað í frábæra ferð norður um allt Skotland, við heimsóttum m.a. þrjá sveitabæi sem eru með lífræna ræktun og selja beint frá sér mest á netinu. Tveir þeirra Withmuir Organics og Hugh Grierson Organic voru með litlar kjövinnslur og vinna allt kjöt sem þeir selja.
Séð heim að Grierson bænum - takið eftir smárabreiðunum í kornarkrinum, smárinn er lykillin að lífrænni ræktun þar sem hann er svo niturgefandi
Við heimsóttum Withmuir Organics þar sem Heather Anderson og Pete Ritchie tóku á móti okkur og sýndu okkur staðinn. Okkur þótti magnað að jörðin sem er aðeins um 50 hektarar og í tæplega 300m hæð yfir sjávarmáli gæti útvegað 20 manns fulla vinnu en þau rækta alls konar grænmeti, svín, kindur, nautgripi, kjúklinga og kalkúna og eru með eigin kjötvinnslu, búð og veitingahús.
Gulli skoðar gróðurhús í Withmuir Organics og svo var keypt grænmeti í kvöldmatinn í búðinni hjá þeim
Við heimsóttum Macleod Organics þar sem Donny Macleod sem hafði hjálpa Siggu mikið við undirbúning ferðarinnar tók vel á móti okkur. Okkur þótti upplagt að færa Donny lopapeysu að gjöf fyrir alla hjálpina og hann var heldur betur ánægður með hana - sérstakaleg að Holla skildi hafa prjónað hana á ferðalaginu til hans
Donny stoltur í peysunni sem er með kindamynstri en hann á einmitt mórauðar kindur
Spunakonur í Lochcarron voru heimsóttar af stelpunum meðan strákarnir m.a. heimsóttu Magnús á eynni Skye sem er íslenskur arkitekt ættaður frá Hellu en hefur búið í Skotlandi í ein fjörutíu ár.
Magnús er skemmtilegur karl og hefur m.a. yndi af að smíða úr trjábolum sem hann flettir sjálfur í stórviðarbandsög
Þeir heimsóttu líka þrjá bæi í Upper-blackpark við Inverness þar sem býr indælisfólk sem safnar m.a. gömlum traktorum og allskonar tækjum tengdum landbúnaði.
Fyrst heimsóttu þeir Ray og Catherine Smith sem eiga mikið safn David Brown véla og fengu Gulli og Nonni meira að segja að prófa nokkra
Carol and Kenny Munro á Ashton Farm eru dugleg að safna traktorum og tækjum og ferðast mikið með þau á sýningar
John Macleod og Annie tóku vel á móti okkur - John á mikið af allskonar vélum og meðal annars Land Rover series 1 1958 árgerð sem er mikil glæsikerra
Á öllum bæjum var spariviskíið degið fram og borðin svignuðu undan veitingum - ekki amalegur dagur hjá þeim strákunum!
Við skoðuðum Whisky verksmiðju-, gamla spunaverksmiðju, reykhús, byggðasafn svipað Árbæjarsafni og margt fleira.
Richard Comfort sýndi okkur reykhúsið þar sem hann reykir fisk, osta og meira að segja smjör! Hann býr líka til sinn eigin ís og er að starta eigin ostagerð - ótrúlegt hvað þetta var allt einfalt og látlaust hjá honum
Borðuðum og gistum á leiðinni meðal annars á hóteli Richards Comfort en enduðum í heimaþorpi Siggu Lochcarron á vesturströndinni.
Það er fallegt heim að líta að Lochcarron þar sem Sigga og Jan búa
Jan var bílstjóri okkar og klæddi sig upp í skotabúning þegar farið var einstigið yfir fjallið Bealach nam Bo sem hækkar um 600m á 4km leið yfir í næsta fjörð í kvöldmat á Applecross Inn til Judith Fish sem heldur úti verðlaunuðum veitingastað í Applecross.
Þetta hefði varla getað verið betri ferð - takk kærlega fyrir okkur og alla fyrirhöfnina Sigga og Jan! Takk líka Jan fyrir sumar af myndunum úr ferðinni sem eru hér fyrir ofan.
Helgina 24-26 var slátrað heima vaskur hópur kom saman að vanda. Nýja aðstaðan sem við notuðum við slátrunina var algjör snilld eða allavega fannst Hollu það þar sem hún fékk að vera inni þetta árið við að taka innanúr.
Gummi og Árni sáu um að flá, Holla og Villí tóku innanúr, Magga og Þóra þvoðu, Bragi og Pétur slátruðu, Sverrir tók af lappir og losaði um gæruna, Gísli viktaði og gekk frá og Nonni skar fyrir og tók af lappir, bar til skrokka og stjórnaði talíunni af mikilli snilld.
Holla rakaði ullina af gærunum og Nonni og Bragi klipptu og sviðu hausa
Sigga systir Nonna er búin að vera hjá okkur síðan 28 október og kom með okkur á Hrossablót Hellisbúans á Brúarlundi þann 01.11 þar svignuðu borðin undan kræsingum og skemmtiatriðin alveg frábær.
Takk fyrir okkur Anna, Eiður, Siggi og Sunneva frábært framtak og við bíðum spennt til næsta árs.
Spunakonurnar í Landsveitinni eru farnar að hittast aftur á Brúarlundi aðra hvora helgi og má Holla ekki missa af því.
Gosmengunin er í algleymingi þessa dagana og um síðustu helgi sást varla til fjalla.
posted Sep 14, 2014, 5:19 PM by Jón Pétursson
[
updated Sep 14, 2014, 5:26 PM
]
Ýmislegt hefur verið sýslað síðustu helgar, Nonni tók rúlluvélinna og hreinsaði hana í krók og kima og smurði fyrir veturinn.
Við þrifum pallinn og bárum á hann, í þetta sinnið prófuðum við glæra pallaolíu frá Pinotex og notuðum skúringarmoppu til að bera á - það gekk ótrúlega vel.
Olían virka vel allavega til að byrja með - spurning hvort hún endist nokkuð betur en Kjörvarinn
Við skelltum okkur vestur í Kolgrafarfjörð þann 17, ágúst á árlega Sindra Toptul verkfærakynningu hjá Gunnu og Bjarna á Eiði, Holla notaði tækifærið og tíndi nokkur box af berjum í leiðinni.
Hér sést heim að Eiði við Kolgrafarfjörð - flott bæjarstæði og bærinn snyrtilegur
Á Eiði er bílasýning um þessa helgi þegar félagar Bjarna mæta með tryllitækin sín og fara svo rúnt á Grundarfjörð í lok dags
Hér erum við í fjósinu á Eiði - allt til sóma eins og annað hjá þeim hjónum
Við fórum hina árlegu Veiðivatnaferð 22-24 ágúst voru allir krakkarnir með okkur og Magga var með sitt lið þannig að hópurinn var stór. Við fengum frábært veður og veiðin var góð.
Það er fagur yfir að líta við Tjaldavatnið - í baksýn eru Skálavötnin og Langavatn
Við notuðum mánudaginn í að ganga frá og pakka fiskinum.
Helgina 29-31. ágúst tókum við Gjafar úr merunum og fórum með hann í tamningu til Hjartar í Flagbjarnarholt, hann var hinn spakasti - einstakt geðslagið í honum.
Gjafar er óspar á brokkið í haganum þó hann hafi ekki sýnt það mikið sem folald heldur farið mest á tölti og skeiði
Óðinn frá Mið-Setbergi sem er undan Gjafari og Kerru dafnar vel og stækkar hratt
Við renndum síðan niður í Helli og sóttum reiðhestana en þeir eru búnir að vera í smá ferðum og trimmi þar seinnipartinn í sumar.
Holla fór í að taka upp kartöflur og er uppskeran vægast sagt frábær munum varla eftir öðru eins. Nú er bara að finna góðar uppskriftir til að komast yfir að elda öll ósköpin í vetur.
Nonni stingur upp beðin og Holla rótar í og tínir upp karftöflurnar
Kettlingarnir eru að kveðja okkur einn og einn, sárt að sjá eftir þessum dúllum en vonandi fá þeir góð heimili.
Helgina 5-7. september var eitt og annað sýslað, Holla tíndi sveppi í skóginum hjá okkur í Mið-Setbergi og líka uppi á Vörðum, smjörsteikti þá síðan og kom þeim í frysti.
Hún prófaði líka að flétta beisli úr ull sem kemur líka svona vel út.
Fléttað beisli og taumur úr ull með gamla handbragðinu
Nonni var mest í skemmunni þessa helgi við að breyta litlum sendibíl í kerru fyrir Eið í Hrólfsstaðahelli, hann skar húsið framan af og smíðaði lok fyrir endann og setti svo beisli undir hann.
Hér er sendibílakassinn eftir að búið er að skera stýrishúsið af og byrjað að forma lokunina
Helgina 12-14. september
Holla klippti líka angúrukanínurnar og svo tókum við þær með okkur í sveitina, við getum því miður ekki haft þær í bænum því Helgi Páll litli frændi Hollu hefur svo mikið ofnæmi fyrir þeim. Við þurfum að útbúa betri aðstöðu úti í garði til að geta haft þær en vandamálið er að þegar þær eru nýklipptar verður að hafa hita á þeim úti nú eða taka þær inn eins og við höfum gert en það gengur ekki útaf ofnæminu.
Fanney hjálpaði mömmu sinni að klippa kanínurnar sem voru hinar spökustu
Til stóð að taka upp restina af kartöflunum þessa helgi og nú mætti Nonni með leynivopn, hann fékk alveg nóg af því að stinga beðin upp um daginn og smíðaði því kartöfluupptektarvél aftan í massann!!!
Hér er græjan komin aftan í massann og klár í slaginn
Vélin virkar þannig að fremst er skófla sem fer undir kartöflubeðið og svo tekur við karfa sem hristist þannig að moldin dettur í gegn en kartöflurnar leggjast ofan á beðið aftan við vélina - algjör snilld!!!
Kartöflurnar liggja ofan á beðinu eftir að vélin hefur farið yfir - þá er bara að tína þær upp
Hér er video af græjunni í aksjón
Kartöfluvélin
Við vorum jafn lengi að taka upp úr sjö beðum eins og að taka upp úr tæplega einu um þar síðustu helgi og uppskeran er rosaleg, við settum niður restar sem við áttum úr einum kassa frá því í fyrra og keyptum einn 5kg poka og fengum rúma 10 fulla kassa
Hér er svo uppskeran þessa helgi - Holla er hugsi, sjálfsagt að velta fyrir sér nýjum uppskriftum
Sunnudagurinn fór svo í að klára að klæða kerruna fyrir Eið
Hér er kerran klár og Eiður og Anna mætt til að sækja hana og stýrishúsið komið á pallinn